152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:16]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég heyri að það er kallað eftir þátttöku okkar sem tilheyrum stjórnarmeirihlutanum í þessari umræðu og er sjálfsagt að verða við því. Ég get lofað hv. þingmönnum að þingmenn fylgjast hér með þessari umræðu þó að ekki séu allir í þingsal eða að óska eftir því að komast á mælendaskrá.

Hér hefur átt sér stað ágætisumræða um frumvarp sem er nátengt fjárlögunum, sem við eyddum jú töluverðum tíma í að ræða. Og bara vegna þess að hv. þingmenn nefndu sumir hverjir að þeir væru hér í fyrsta sinn og furðuðu sig svolítið á umræðunni, þá er það nú þannig að 1. umr. um mál er oft ekki ýkja löng. Fólk er að virða skoðanir sínar og sjónarmið á því sem liggur hér frammi, en dýpsta vinnan á sér stað í nefndinni sjálfri.

Ég naut þess að vera í hv. efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta kjörtímabili og þar var mjög spennandi vinna með þetta ágæta frumvarp. Og ég sit nú í fjárlaganefnd þar sem við erum að falla um fjárlögin. Svo gerir maður ráð fyrir því að einmitt þegar við erum búin að fara á dýptina ofan í þessi mál og komin með þau í 2. umr. í þingsal verði umræðan jafnvel enn meiri.