152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Já, það er gott að það er engin skipun til meiri hluta þingmanna um að mæta ekki hérna í ræðustól. En er það þá bara skortur á áhuga? Er ekki búið að vera að tala um mjög mikilvæg og áhugaverð mál hérna, eins og maður myndi halda? Við erum í 1. umr. En það eru þrjár umræður um lög. Ekki sleppum við þá 1. umr. bara af því bara, hvað þá umræðu um svona mikilvæg lög. Þó að það sé eftir einhver vinna í nefndinni og við 2. og 3. umr., þá höfum við alveg lent í því að forseti hefur kvartað hérna á fyrra kjörtímabili undan því að liðurinn um atkvæðagreiðslu sé orðinn enn ein umræðan um frumvörp eða tillögur. En það er einfaldlega af því að það er einungis þá sem er einhver þátttaka af hálfu stjórnarþingmanna í umræðu, sem vantar annars oft. Þannig að ef þeir stjórnarþingmenn eru allir að fylgjast með, hvað er þá málið? Erum við að segja einhverja skrýtna hluti hérna sem ekki eru þess verðir að bent sé á, eitthvað sem taka þurfi tillit til í nefndarvinnunni?