152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Áhugavert að fá gildismat á því framlagi sem maður leggur til hér í ræðustól Alþingis frá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, kannski hún fylgist þá aðeins með þeim tveimur atriðum sem ég ætla aðallega að bæta við í 1. umr. um þetta mál. Í fyrsta lagi ætla ég að fjalla örlítið um verðlagsuppfærslur krónutöluskatta sem eru alltaf mjög áhugaverðar á hverju ári. Hér er fjallað um að hækkunin nemi 1,7 milljörðum kr. á ári að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt. Þessi áhrif eru áætluð 0,08%, það er ekki sagt nákvæmlega í greinargerðinni en ég skildi það af framsögu ráðherra að það væri hlutdeildin, ekki hlutfall, heldur hlutdeild í verðlagsþróun vísitölu neysluverðs, verðbólgunni í rauninni. Án alls annars myndi vera 0,08% verðbólga bara út af krónutölusköttunum. Það eru 37 eða 38 milljarðar sem fara í launa- og verðlagsbætur í fjárlagafrumvarpinu sem mundi þýða, gróflega reiknað, að það er hálfur til 1 milljarður eða svo sem eru væntanlega hringrásaráhrif þessara krónutölubreytinga í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Það þarf að taka tillit til þessara krónutöluhækkana á næsta ári. Þannig að 1,7 milljarðar í tekjur minnka þarna um hálfan til 1 milljarð eða svo þar sem þetta hefur líka áhrif á laun sem slík. Verðbólgan er eitt en svo er verðlagsþróunin líka. Þarna er verið að hækka verðlag sem hefur áhrif á kaupmáttinn sem hæstv. ráðherra er svo annt um. Það eru 2,8 milljarðar eða svo af vergri landsframleiðslu sem er þarna verið að bólstra lítillega. Þetta finnst mér áhugavert í samhengi hlutanna.

Hitt sem mig langar til að fjalla um er þessi breyting á túlkun laga, sérstaklega á 69. gr. almannatryggingalaga. Ég fjallaði aðeins um þetta í andsvörum við nokkra þingmenn en mig langar að fara yfir það á heildstæðari hátt í ræðu. Hér erum við að fjalla um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2022 og það hefur aldrei gerst áður að horft hafi verið til verðlagsþróunar eða launaþróunar liðins árs þegar verið er að uppfæra lífeyri almannatrygginga fyrir næsta ár. Það er að gerast í fyrsta sinn núna í rauninni. Þá hafa verið ár þar sem ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að hækka umfram lágmörkin sem getið er um í lögunum, það hefur gerst, að ég held, sex sinnum á undanförnum 23 árum eða eitthvað svoleiðis. Þá er þetta í sjöunda sinn sem það væri gert. En við vitum ekki hver raunhækkunin verður og við vitum ekki hvort þessi hækkun verði umfram raunverðbólgu og raunlaunaþróun. Það á eftir að koma í ljós hvort þetta er í raun og veru hækkun umfram það eða ekki. En þetta er, eins og ég segi, í fyrsta sinn sem horft er til baka og sagt: Það var gert ráð fyrir minni verðbólgu en raunin varð, við hækkuðum lífeyri almannatrygginga samkvæmt verðbólguvæntingum sem urðu síðan hærri. Þarna munar 0,8% og við ættum að taka tillit til þess nú á næsta ári og bæta við þessum 0,8% fyrir árið 2022. Mjög gott, frábært. Á þennan hátt hef ég skilið þessa grein, 69. gr. almannatryggingalaga. Þar er kveðið á um að bætur almannatrygginga skuli hækka að lágmarki um það sem er hærra, verðlagsþróun eða launaþróun. Ég veit að launaþróun er mjög flókið hugtak og í raun er ekki til sérstakur útreikningur á því hvað það er í raun og veru þannig að nærtækast er kannski að miða við launavísitölu. Það eru til nokkrar greiningar hjá verkalýðsfélögunum sem hafa sýnt að hækkanir félagsmanna þeirra flútta nokkurn veginn nákvæmlega við launavísitölu. Það er því mjög nærtækt að nota tilvísun í launavísitölu þegar talað er um launaþróun. Það er alla vega ekki fjarri lagi.

Þetta er sem sagt ákvörðun ríkisstjórnarinnar greinilega, að endurtúlka það hvernig á að fara með 69. gr. almannatryggingalaga án þess að það sé lagabreyting í þessu frumvarpi. Það finnst mér áhugavert. Ég hefði búist við því, af því að verið er að túlka þessi lög á nýjan hátt, að lagabreytingu hefði þurft til að byggja grunn fyrir þeirri nýju ákvörðun. Nema það sé einmitt einfaldlega ákvörðun ríkisstjórnarinnar að gera þetta öðruvísi, sem er ekki alveg það sem okkur hefur verið kynnt. Okkur hefur verið kynnt að þetta 1% í viðbót sé samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Þetta er aðeins misvísandi. Vandinn er að verðbólga var hærri á árinu 2021 en gert var ráð fyrir en það var launaþróunin líka. Gert var ráð fyrir 3,4% launaþróun á árinu 2021. Gert var ráð fyrir 3,6% verðbólgu. Þess vegna voru bætur almannatrygginga hækkaðar um 3,6% en ekki samkvæmt launaþróun sem var 3,4%. Nú erum við með verðlagsþróun upp á 4,4%. Allt í lagi, frábært, það er hærra en 3,6%. Þótt ekki sé fjallað um það í fjárlagafrumvarpinu þá er hægt að fara inn á vef Hagstofunnar og skoða breytingar á launavísitölu sem er nákvæmasta talan sem við höfum um það hvernig laun eru að þróast. Ef við skoðum ár aftur í tímann, frá nýjustu tölum sem eru í október 2021 og tökum október 2020 til október 2021, jafngildir sú breyting 7,6% hækkun, ekki 3,4% heldur 7,6%. Þannig að upprunalega talan sem var notuð vegna verðbólgunnar, væntrar verðbólgu, sem var 3,6%, ætti að miða við hæstu töluna sem er ekki 4,4% heldur launaþróunina sem er 7,6% eða þar um bil. Þar munar 4 prósentustigum en ekki 0,8.

Ég ræði þetta sérstaklega í umræðu um þetta frumvarp af því að mér finnst ný lagatúlkun vera í gangi án þess að gerð sé breyting á lögum. Mér finnst áhugavert að svo sé. Ég fjallaði um það í andsvari við hv. þm. Guðmund Inga Kristinsson hvað sagan segir okkur um nákvæmlega þessar breytingar sem eru gerðar á hverju ári. Meðaltal launaþróunar, meðaltalsprósentan frá árunum 1997–2020 er 6,93%, launavísitalan. Þetta er á ári. Verðbólgubreytingin á ári í prósentum, prósentutalan sjálf á sama árabili, er 4,29% að meðaltali. Ef við myndum nota hærri töluna þá dugar það ekki alveg af því að það er mismunandi hvort verðbólgan sé hærri eða launaþróun. Miðað við þetta hefur meðaltalsprósentuhækkunin á örorkulífeyri á þessu sama tímabili verið 5,54%. Hún er hærri en verðbólgan — sem er gott, það er kaupmátturinn, frábært — en hún er lægri en launaþróunin sem er 6,93%. Það er slæmt, það er kjararýrnun miðað við meðaltalsþróun á launamarkaði. Þannig að já, kaupmátturinn, það er frábært, en nei, ekki jafn góður og fyrir aðra. Vandinn er að þarna átti að miða við hærri töluna, hvort sem það er launaþróun eða verðbólga, því að stundum er verðbólgan hærri en launaþróun, og þá hefði átt að miða við 7,47% að meðaltali, ekki 5,54% eins og í rauninni hefur verið gert. Þarna er u.þ.b. 2 prósentustiga munur sem summast upp í um 50% mun á upphæðum þegar allt kemur til alls eftir rúm 20 ár. Og í rauninni meira, ég reiknaði bara 20 ár en þetta eru 23 eða 24 ár þannig að það er orðið meira en það, þetta eru bara 20 ár og summast upp í 50%. Það finnst mér mjög alvarlegt.

Maður heyrir það í allri umræðunni um kaup og kjör nákvæmlega þessa hóps að það er verið að fjalla um 300.000 kr., 320.000 kr. í grunnlífeyri og maður sér að fólk sem er með hvað minnst er með um 200.000 kr. Ef við setjum 50% ofan á það erum við komin með 300.000, æði. Þetta eru nákvæmlega tölurnar sem er verið að fjalla um að ættu að vera í gildi og væru í gildi ef það væri einfaldlega farið eftir bókstaf laganna og hækkað samkvæmt launaþróun eða verðlagsþróun, hvort sem er hærra. Það hefur hins vegar ekki verið gert. Það hefur bara verið hækkað samkvæmt væntingum, samkvæmt spá um hver launaþróun og verðlagsþróun verður, ekki hver raunveruleg verðlagsþróun og launaþróun hefur verið. Núna er hins vegar verið að breyta því. Núna er verið að fara til baka og segja: Árið 2021 var meiri verðbólga en gert var ráð fyrir og við ætlum að hækka samkvæmt því. Frábært, þetta er frábær niðurstaða. Mér líst mjög vel á þetta. Þetta er mjög í anda lagagreinarinnar í almannatryggingalögunum nema hvað hér er launaþróunin hunsuð algjörlega sem var stærri stærðin. Með þessu er ríkisstjórnin að taka ákvörðun, eða hver sem ákvað að túlka almannatryggingalögin svona upp á nýtt, um að horfa til þess hvernig þetta á að hækka í raun en velur lægri töluna, ekki hærri töluna, sem er mjög áhugavert. — Ég sé ekki að einhver stjórnarþingmaður hafi óskað eftir að spyrja mig eða fjalla nánar um þetta í andsvörum. Sjáum hvernig það gengur.