152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég verð að segja t.d. með áfengisgjaldið að ég hef verið sammála hæstv. fjármálaráðherra um að við erum komin að ystu mörkum hvað varðar álögur á áfengi á Íslandi, sérstaklega þegar við erum með óljósa stefnumörkun á bak við. Eitt árið segjum við já, við þurfum að setja í forvarnastarf, við þurfum að bæta í SÁÁ en síðan kemur næsta ár og þá þarf ekkert að bæta í. Það þarf að vera meira samhengi þar á milli. Svo er það líka það sem við í Viðreisn höfum verið að kalla eftir á öðrum sviðum og það eru árangursmælikvarðar. Það er eins og það eina sem kemur frá ríkisstjórninni sé að bæta í útgjöld. Og allt í lagi, gott og vel, tökum þá umræðu. Batnar þjónustan? Styttast biðlistarnir? Verða vegirnir betri? Verða til að mynda fjarskiptin á landsbyggðinni betri? Mér finnst vanta þennan árangursmælikvarða sem svo lengi hefur verið kallað eftir, reyndar mjög lengi, svona í gegnum árin ef maður fer að fletta upp í sjálfum sér. Mér finnst það skorta. Það er svolítið vaðið í þetta og ekki hugsað um stóru myndina. Við megum ekki gleyma því að Ísland er háskattaland miðað við OECD. Ég er ekki að segja að það sé skammaryrði. Ég veit að við Íslendingar viljum greiða skatta svo lengi sem þeir fara í arðbærar fjárfestingar og öfluga samfélagslega þjónustu, hvort sem það er á sviði menntunar, nýsköpunar eða heilbrigðismála. En mér finnst það vera í lausu lofti. Eftir öll þessi umskipti og góða viðleitni, m.a. af hálfu hæstv. fjármálaráðherra í gegnum tíðina, til að bæta umgjörðina við fjárlögin, eins og með lögum um opinber fjármál, þá finnst mér losarabragur á þessu, lausatök, og mér finnst gegnsæið ekki aukast með árunum, þvert á móti.