152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[17:17]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóða ræðu. Það var eitt sem ég hjó eftir, bæði í ræðu hv. þingmanns og eins í andsvörum við hæstv. fjármála- og efnahagsmálaráðherra, það virðist vera voða erfitt fyrir ríkið að svara hvaða áhrif ákveðnar aðgerðir hafa eða svara því hvers konar breytingar ákveðnar aðgerðir hafa í för með sér.

Nú stundaði ég nám við Kaupmannahafnarháskóla fyrir rétt rúmum 30 árum og þá frétti ég af því að þar væru ríkið og þingið með tæknitól, nokkurs konar módel til þess að svara slíkum spurningum. Þetta módel hét Adam sem, með leyfi forseta, stóð fyrir „Annual Danish Aggregate Model“. Var þetta ekki með góðum dönskum hreim þarna? Nú veit ég fyrir víst að slíkt módel var búið til hér á landi eftir hrunið til að hægt væri að taka betri ákvarðanir um það hvað þyrfti að gera til að bjarga heimilunum. Planið var víst alltaf að senda slíkt módel yfir í Hagstofuna en það fylgdu aldrei neinir peningar til þess að halda þessu módeli við.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann ekki vera kominn tíma til að við sem þingmenn og ríkisstjórnin og ráðuneytin hafi slíkt tól til að geta skoðað áhrif aðgerða?