152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[17:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Til að byrja með er auðvitað bara ábyrgðarhluti hjá okkur þingmönnum að taka ákvarðanir án þess að vita hvaða áhrif þær hafa. Nú þekki ég ekki þetta danska tól sem hv. þingmaður vísaði til en ég held í öllu falli að skynsamlegt sé að uppáleggja í þessu tilviki fjármálaráðuneytinu nokkuð stífar óskir, ef svo má segja, hvað það varðar að greina og útskýra áhrif. Mér þykir t.d. alveg fráleitt, eins og ég kom inn á í andsvörum mínum við hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag og í ræðu minni hér áðan, að eingöngu sé horft á gjaldahliðina í tengslum við hækkað frítekjumark eldri borgara. Það er bara algjörlega fráleitt og stenst enga skynsemisskoðun. En svona er þetta nú.

Ég ítreka bara það sem ég sagði áðan að mér segir svo hugur að nettóútgjaldaauki af þessari aðgerð sé hverfandi ef nokkur. Að sama skapi finnum við okkur í þeirri stöðu að innleiða hinar ýmsu reglur og gerðir. Ýmsir sáttmálar eru þannig fram settir að erfitt er að lýsa yfir andstöðu við innleiðingu án þess að fá yfir sig mikil hrakyrði.

Án þess að maður sé endilega á móti efnisatriðum málsins, eða segjum bara einhvers sáttmála sem er verið að horfa til innleiðingar á, er alveg óþolandi að vera í þeirri stöðu að hafa ekki hugmynd um, eða a.m.k. litla, þó að ekki væri nema hver fjárhagslegu áhrifin af slíkri ákvörðun eru því að það ætti kannski í flestum tilvikum að vera auðveldast að nálgast. Þó að auðvitað sé alltaf einhver óvissa þá held ég að þeir sem bestar upplýsingar hafa hafi ágætis tilfinningu fyrir því hver áhrifin verða ef ekki á að bíða með innleiðingu þessa tiltekna þáttar.