152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[17:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Fyrst varðandi verðbólguna: Það eru ekki bara áhrifin sem þessi 2,5% sjálfvirka hækkun hefur á hækkun verðbólgu heldur er líka ákveðið samþykki gagnvart markaðnum í heild, öllum seljendum vöru og þjónustu, að hann segi bara: Heyrðu, ríkissjóður er að hækka, þeir eru ekkert bíta á jaxlinn og halda aftur af sér hvað verðlagshækkanir varðar. Við ýtum okkar út líka.

Áhrifin eru auðvitað afleidd úti um allan markaðinn. Ég held að það væri mjög gott merki, sérstaklega ef einhver meining er á bak við það að reyna að halda aftur af verðbólgu og útþenslu báknsins, að falla frá þessari sjálfvirku hækkun. Mér þætti góður bragur á því en það er fátt sem bendir til þess í augnablikinu, sýnist manni, að vilji sé til þess hjá ríkisstjórninni.

Ég þarf nú að fara að kynna mér Adam og Evu á öðrum forsendum en hingað til en hvað Evu varðar, þetta danska kerfið sem var byggt upp fyrir 30 árum til að auðvelda þingmönnum að taka tillit til áhrifa á umhverfið og náttúruauðlindir, þá erum við auðvitað með nokkur slík kerfi í gangi þótt þau heiti ekki jafn skemmtilegum nöfnum og góðum og vel meitluðum. Það er mat á umhverfisáhrifum, það er sérstakt yfirmat á umhverfisáhrifum áætlana, ef ég man rétt, og fleira slíkt. Þetta eru alveg ofboðslega kerfislægar (Forseti hringir.) lausnir og oft notaðar á annan máta, held ég, (Forseti hringir.) en þær voru upphaflega hugsaðar til.