152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[17:51]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Herra forseti. Mér fannst við hæfi að koma hér aðeins í pontu á eftir starfsaldursforseta þingsins, sem nýr þingmaður hér að stíga mín fyrstu skref, og blanda mér aðeins í umræðuna um fjárlög þar sem ég sit nú í fjárlaganefnd þingsins. Það hefur verið kallað eftir því hér í dag að þingmenn meiri hlutans komi og tjái sig og ég ætla aðeins að skýra mína hlið á þessu máli.

Ég er búinn að vera í þinginu í allan dag og síðustu daga og hlusta á umræðuna. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem erum að koma inn ný að reyna að átta okkur á umfangi þess verkefnis sem við erum með í höndunum. Fyrir okkur og fyrir mig að stíga fyrstu skrefin í fjárlaganefnd þingsins skiptir ekki síður máli, mjög miklu máli, að heyra þau sjónarmið sem hér hafa komið fram og fara með þau inn í nefndina til þess að hægt sé að taka umræðu þar fyrir seinni umræður fjárlaga.

Fyrir mína parta hafa þessir dagar verið afskaplega áhugaverðir. Það hefur verið áhugavert og athyglisvert að fylgjast með umræðunni og hlusta á þau mörgu og mismunandi sjónarmið sem hér hafa komið fram. Þannig að ég hlakka bara til verkefnanna í nefndinni, að koma þessu saman. Það er mikilvægt að þessi umræða fari fram og að hlustað sé á þau sjónarmið sem hér hafa komið fram og það er ég að gera.