152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[17:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Norðvest., Stefáni Vagni Stefánssyni, kærlega fyrir að koma hingað upp. Ég skil alveg hvað hv. þingmaður er að segja. Ég fagna því um leið að núna hafa tveir af 38 þingmönnum meiri hlutans, stjórnarliðum, komið hingað upp. Ég vil þakka fyrir það í leiðinni að hv. þingmaður er að hlusta, m.a. á mjög málefnalegar ábendingar að mínu mati þegar kemur að því að leysa úr þessu annars risastóra verkefni. Stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar og okkar sem erum á þingi er að koma efnahagsmálum landsins á réttan kjöl, að gera ríkissjóð sjálfbæran, að hafa atvinnulífið þannig að við getum öll hlaupið hraðar, þannig að við getum vaxið út úr vandanum. Þá er af mörgu að taka. Það er alveg heill hellingur að byrja sem nýr þingmaður hér á þingi, vera í fjárlaganefnd og líka formaður atvinnuveganefndar, sem eru gríðarlega miklir og mikilvægir málaflokkar, sem ég vil óska hv. þingmanni velfarnaðar í. En um leið þakka ég fyrir að verið er að hlusta. Ég vil um leið hvetja alla nýja þingmenn, ekki síst, til að taka þátt í umræðunni. Það er oft hrollur í manni þegar maður kemur hingað upp og finnst maður stundum ekki hafa nægilega mikla yfirsýn. En allir þeir sem kjörnir hafa verið á þing þvert á flokka eru hæft fólk sem vill vel og hefur metnað til þess að standa sig betur fyrir hönd þjóðarinnar. Þannig að ég er nokkuð bjartsýn um leið og ég ítreka að sjálf ætla ég að fara í stutta ræðu á eftir. Það var eitt atriði áðan sem ég gleymdi sem er í raun ábending til hv. fjárlaganefndar og þeirra þingmanna sem þar eru.