152. löggjafarþing — 7. fundur,  8. des. 2021.

velferð dýra.

15. mál
[17:39]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þetta andsvar. Jú, ég tók eftir því hjá hv. þingmanni að hún vildi bæta bændum þennan tekjumissi. Ég tók eftir því, það er rétt. Ég hef ekki nákvæma tölu á því hve margir af þessum 119 hafa þetta sem aukabúgrein og loka reiknisbókhaldinu um hver mánaðamót með þessum tekjum, en þeir eru þó nokkrir, eftir því sem mér er sagt. Það er auðvitað líka með bændur eins og aðra, að þó að við viljum kaupa frá þeim atvinnuna þá getur vel verið að við þurfum í þessum sal að hugsa til þess að bændur, innan þeirra marka og reglna sem gilda, geti sjálfir valið sér starfsvettvang og þær starfsgreinar sem þeir sinna í sveitinni. Mér finnst að það sé alla vega spurning sem við þurfum að skoða.

Varðandi meðferð á ótömdum dýrum þá veit ég það af gamalli reynslu að það er ekkert auðvelt. Það er ekkert auðvelt að eiga við ótamin hross, en það er líka í því eins og öðru að það er bara hvernig farið er að, hvers konar hlutir eru í gangi og hvernig aðbúnaðurinn er. Ég er nýlega búinn að taka þátt í því að sækja átta hross sem höfðu aldrei komið undir manna hendur, það gekk mjög vel, svo að ég segi það.

Þetta er alltaf spurning um fagmennsku og auðvitað er það ekki alltaf fallegt sem þarf að gera til að ná tökum á dýrum. Ég hef tekið þátt í því sjálfur og það hafa allir gert, bara kúasmalar í sveitum hafa gert það. Þess vegna segi ég að atvinnulífið og lífið til sveita er ekki alltaf einfalt, það er ekki alltaf slétt og fellt. En á bak við eru bændur sem hafa verið að yrkja jörðina og ala þessi dýr upp vegna þess að þeir hafa ánægju og gleði af því.