152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

leiðrétting kjara lífeyrisþega.

[13:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Forseti. Um leið og ég óska nafna mínum til hamingju með nýtt embætti sem hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra vil ég benda á að undanfarið hef ég fengið ótrúlegan fjölda símtala og pósta frá örvæntingarfullu fólki sem sér fram á að eiga ekki fyrir mat um jólin. Þeir sem ekki eiga fyrir mat hafa líka áhyggjur af því hvernig þeir eigi að gefa börnunum sínum jólagjafir. Við erum ótrúlegt samfélag og það eru þung spor og erfið fyrir fólk að þurfa að labba í röð eftir mataraðstoð með börnin sín sér við hlið. En það eru ekki allir sem geta það. Það er stór hópur einangraður heima hjá sér með undirliggjandi sjúkdóma sem getur enga björg sér veitt. Og það sem er furðulegt er að það getur ekki sótt neins staðar um aðstoð. Við höfum dæmi um það héðan úr þessum sal að búið er að hjálpa ótrúlegum fjölda fólks vegna Covid-19. En einn hópur hefur algerlega setið eftir og ekki fengið krónu í afslátt og það eru eldri borgarar, eldra fólkið okkar er gjörsamlega skilið eftir.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra félagsmála: Er á dagskrá hjá honum að taka á þessum málum? Er inni í hans plani nú fyrir jólin eingreiðsla, skatta- og skerðingarlaus, eins og var síðast, og þá til allra, öryrkja, einstæðinga og eldra fólks? Eða er ekkert annað í boði en auma eina prósentið sem hver á fætur öðrum hefur boðað, sem alveg ótrúlegt örlæti, 1%, 1.500 kr. og skattar skerða svo í þokkabót? Við hljótum að geta gert betur. Eða ætlar ríkisstjórnin ekki að gera neitt?