152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

leiðrétting kjara lífeyrisþega.

[13:23]
Horfa

félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka aftur spurninguna. Ég vil svara þessu þannig að fram undan er núna það sem ég nefndi hér áðan, að fara í þessa heildarendurskoðun á kerfinu þegar kemur að örorkulífeyrisþegum, en við þurfum líka að fara í endurmat á því hvernig hefur tekist til varðandi eldra fólk eftir breytingarnar sem voru gerðar 2016 eða 2017, ég man ekki hvort árið það var. Ég mun beita mér fyrir því að við reynum bæði að einfalda kerfið þannig að það skili betri afkomu fyrir þau sem minnst hafa á milli handanna og að kerfið grípi þau sem missa fótanna eða geta ekki séð sér farborða af einhverjum ástæðum, en jafnframt að gera það þannig að fólk sem hefur möguleika til þess að sjá fyrir sér að hluta til geti gert það. Það eru mín markmið og ég mun vinna að þeim og vonast til að eiga gott samstarf við þingmenn í þessum sal.