152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

aðgerðir gegn kynferðisbrotum og aukinn stuðningur við þolendur.

16. mál
[15:47]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 13. þm. Suðvest. kærlega fyrir að treysta okkur fyrir sinni sögu, hún er mikilvæg. Hún er mikilvæg fyrir það sem við ræðum hér, takk fyrir. Það er mikilvægt að við horfum á þennan málaflokk sem eina heild. Vandamálið er ærið og við þurfum að skoða það út frá hagsmunum þolenda auk þeirra sem eru gerendur í slíkum málum. Það er til hagsbóta að við náum málshraðanum niður og með því að gefa rannsóknardeildum lögreglu betri verkfæri og betri starfsaðstæður getum við stýrt því betur hvernig við stígum fyrstu skrefin inn í rannsókn slíkra mála. Fyrstu skrefin í rannsókninni skipta öllu máli fyrir það hver afdrif málanna verða síðan fyrir dómstólum.

Ég vil taka fram að margt hefur áunnist, eins og komið hefur fram hér, og lögreglan er öll að gera sitt besta, við vitum það alveg. Það eru allir að gera sitt besta við þær aðstæður sem þeir hafa, við verðum að tíunda það aðeins líka. En við þurfum líka að búa lögregluna réttum verkfærum til þess að geta tekið betur á þessum málaflokki og öðrum, og það er mikilvægt að gera það hratt og vel. Þá er mikilvægt að við tökum fast utan um það verkefni að fjölga lögreglumönnum. Það er oft grundvallaratriðið í því að við getum ekki gert betur í rannsókn mála.

Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni sem var á undan mér í þessum ræðustól um að þolendur séu ekki aðilar að eigin máli. Þeir eru með réttarstöðu vitnis í eigin máli og sú staða er óviðunandi. Réttargæslumenn fá líka takmarkaðar upplýsingar frá lögreglu í slíkum málum og ekki er hægt að horfa fram hjá þeirri stöðu lengur. Réttargæslumenn vinna ótrúlegt verk og þeim tekst með einhverjum hætti, sem er óskiljanlegur, að fá til sín upplýsingar til að geta tryggt vitninu, þolandanum, betri réttarstöðu í sínu eigin sakamáli. Við eigum framúrskarandi sérfræðinga á þessu sviði og með tilkomu þjónustumiðstöðvar þolenda ofbeldis á borð við Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð á Akureyri og Sigurhæð á Selfossi höfum við náð að styðja miklu betur við þolendur og gefa þeim sterkari rödd í samfélaginu.

Það er hins vegar sorglegt að sjá þá þróun sem við höfum fylgst með undanfarið. Við verðum að geta gert svo miklu betur í þessum málaflokki og það er það sem hv. þingmaðurinn er að leggja fram. Ég styð heils hugar þessa þingsályktunartillögu og ég vona að við náum einhverjum ávinningi í þessum málum.