152. löggjafarþing — 8. fundur,  9. des. 2021.

stjórn fiskveiða.

86. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli nú að ég held í fjórða eða fimmta sinn fyrir þessu mikilvæga frumvarpi. Það felur ekki í sér að skipa nefnd, skoða málið eða setja á starfshóp til þess að skoða eitt af þeim gríðarlega mikilvægu málum sem við þurfum að taka á, sem tengist fiskveiðiauðlindinni sem er sameign þjóðarinnar þó að ýmsir vilji skilja hlutina á annan hátt. Við upplifum að ástandið er óbreytt misseri eftir misseri, ár eftir ár, og ekkert gerist af því að hér var kyrrstöðustjórn á síðasta kjörtímabili og hún heldur áfram, það má ekki snerta við þessu kerfi þrátt fyrir það að hátt í 90% þjóðarinnar séu ósammála því að þetta sé gott, réttlátt kerfi. Hátt í 90% þjóðarinnar segja: Kæru, alþingismenn, elskulega ríkisstjórn, viljið þið breyta kerfinu í þágu okkar allra, ekki að það sé bara fyrir suma eins og hefur verið allt of lengi?

Núna er þjóðarbúið í heild sinni blessunarlega að detta í lukkupottinn þegar við sjáum fram á mikla loðnugengd. Bræðslurnar, útvegsfyrirtækin, uppsjávarfyrirtækin geta sem betur fer haldið út á miðin og náð í verðmæti fyrir þjóðarbúið en um leið eru þau ekki í sama mæli að greiða fyrir þessi einkaafnot af auðlindinni eins og þeim ber. Þetta er gríðarlegt áhyggjuefni, að sjá það ár eftir ár og núna með þessa ríkisstjórn að það á í rauninni lítið meira að gera heldur en eitthvert snurfus. Við skulum rifja upp að það hafa verið skipaðar nefndir sem hafa skilað gríðarlega mikilvægri leiðsögn eins og auðlindanefndin frá árinu 2000, þverpólitísk nefnd sem skilaði miklu starfi undir forystu Jóhannesar Nordals þar sem leiðsögnin var afar skýr. Þar mátti sjá gríðarlega mikinn vilja stjórnmálaaflanna þá en líka hagsmunaaðilanna til þess að breyta kerfinu, alla vega eitthvað aðeins til þess að koma til móts við skiljanlegar gagnrýnisraddir á þessu annars mikilvæga kerfi.

Ég verð ekki þreytt á því að segja að íslenska sjávarútvegskerfið í heild sinni, í þessari stóru mynd, hvernig við stjórnum því í gegnum kvótakerfið, er gott. Það eru vissulega agnúar á því sem er hægt að sníða af. Það er hægt að hlusta betur á ákveðin sjónarmið sem tengjast bæði skiptingu á aflahlutdeild o.fl. En stærsta málið er auðvitað að tryggja raunverulega eignaraðild að fiskveiðiauðlindinni, raunverulega þjóðareign, að þetta fallega orð þjóðareign hafi eitthvert innihald, hafi eitthvert gildi. Auðlindanefndin sem var skipuð 2000 skilaði af sér skýrri leiðsögn um að treysta ekki síst þetta grundvallarprinsipp um að treysta rétt þjóðarinnar yfir auðlindinni og við værum ekki að festa í sessi — og það eru liðin 21 ár — þetta óréttlæti, þetta óöryggi og þá óvissu sem þjóðin stendur frammi fyrir, hvort hún hafi raunverulega þau stjórntæki sem hún þarf á að halda til að tryggja hennar eigin rétt eða hvort málum sé þannig háttað að útvegurinn, sjávarútvegurinn, sé með tögl og hagldir í öllum þeim málum sem tengjast sjávarútvegi. En það þarf pólitískan vilja til að breyta. Auðlindanefndin sýndi fram á þverpólitískan vilja, hagsmunasamtökin þá, LÍÚ líka. Þremur, fjórum árum seinna var LÍÚ búið að draga allt í land, síðan breytir það um nafn en ekki stefnu. Stefnan hjá þeim er í rauninni sú sem ríkir núna undir þessari núverandi ríkisstjórn, frekar lítið veiðigjald sem er greitt og enginn vilji til þess að tryggja raunveruleg yfirráð þjóðarinnar yfir sjávarauðlindinni.

Auðlindanefndin undirstrikaði það að gera tímabundna samninga, tryggja það með óyggjandi hætti að auðlindin væri í eigu þjóðarinnar. Síðan hafa auðvitað til viðbótar verið lagðar fram ýmsar tillögur í þá veru að tryggja þjóðinni réttmætt gjald fyrir þessi einkaafnot af sjávarauðlindinni. Það hefur vissulega gengið brösulega. Það hefur ekki mátt nefna það að fara mjög gegnsæjar, einfaldar leiðir, einhverjar leiðir sem ég hefði haldið að ekki síst flokkur sem trúir á frelsi, trúir á markaðinn, myndi fara, flokkur sem trúir því að markaðurinn sé ákveðið mælitæki, stýritæki til þess að ná fram hinu sanna verðmæti. En það er ekki einu sinni hægt að treysta markaðnum til þess að ákvarða verðið á okkar sameiginlegu auðlind af því að það er ekki ólíklegt að markaðurinn myndi segja: Heyrðu, kæru vinir, þið eruð búnir að borga allt of lágt gjald áratugum saman fyrir þessi einkaafnot og við, markaðurinn, ætlum að verðleggja fiskveiðiauðlindirnar mun hærra. Það er ekkert ólíklegt. Hagfræðingar hafa reiknað út að það er ekkert ólíklegt að það væri a.m.k. tvöfalt hærra gjald heldur en greitt er í dag.

Með nýrri ríkisstjórn, sem er hin gamla ríkisstjórn, verður litlu breytt. Starfshópur skipaður og ekki einu sinni komið á hreint hvort það eigi að vera þverpólitískt starf, hvort það eigi að leyfa öðrum sjónarmiðum að koma að borðinu. Það verður ekkert ákveðið fyrr en búið er að fara niður í Borgartún 35 og spyrja Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hvað þau vilja. Svo verður málið fyrst metið. Það er nú allur metnaðurinn. En ég verð samt að segja, talandi um metnað, talandi um staðfestu, að maður ber ákveðna von til hæstv. sjávarútvegsráðherra, hún er til staðar. Eins ósammála og ég hef verið henni í nálgun hennar og stjórnarinnar á heilbrigðiskerfinu þá hefur hún verið öflug fyrir sína grasrót, fyrir sínar hugsjónir og bakgrunn um það að ríkisvæða allt í heilbrigðiskerfinu, nýta ekki alla krafta t.d. sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks, vera treg í að semja við sjálfstætt starfandi sálfræðinga, sjúkraþjálfara, talmeinafræðinga. Hún hefur verið mjög staðföst í þessari stefnu Vinstri grænna og fékk að vera algjörlega óáreitt í ríkisstjórn með meðvirku flokkunum tveimur í heilbrigðismálunum, Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Þeir bera jafn mikla ábyrgð á því að í dag erum við með biðlista eftir biðlista í heilbrigðiskerfinu, við erum með Landspítala sem nær ekki að opna nægilega vel og sinna öllu af því að það er ekki búið að hlúa að spítalanum í gegnum árin. Það er ekki búið að fjölga hjúkrunarrýmum, það er ekki búið að skoða myndina heildstætt. Þetta er allt á ábyrgð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks líka. En af því að við sáum hugsjónir Vinstri grænna, hugsjónir hinnar atorkumiklu konu sem nú gegnir embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við sáum þessar hugsjónir verða að veruleika í heilbrigðisráðuneytinu, þá bind ég vonir við að það verði sama eftirfylgni og sama atorka í ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og var í heilbrigðisráðuneytinu af hálfu ráðherra, að hún nái því raunverulega að rugga bátnum, með fullri virðingu fyrir mikilvægum málum sem hægt er að tengja við landbúnaðinn — umhverfismál, loftslagsmál, allt gríðarlega stór mál sem við erum öll sammála um að okkur beri að fara í og ég vona að tækifærið til þess að ýta undir loftslags- og umhverfismál á sviði jarðræktar og landnýtingar verði nýtt, að það verði þá stokkað svolítið upp í landbúnaðarkerfinu — en það má ekki gleyma sjávarútveginum.

Ég saknaði þess bæði í stefnuræðunni og í ákveðnum umræðum af hálfu nýrrar ríkisstjórnar og ráðherra að sjónum væri ekki beint nægilega að því óréttlæti sem er í sjávarútvegskerfinu. Ég vona að þessum starfshópi verði fylgt eftir, ég vona að hann fái sjálfstæði og sjálfdæmi frá hagsmunaöflum, það verði raunverulega reynt að ná í sátt, raunverulega reynt að teygja sig til almennings, teygja sig til þessara hátt í 90% sem eru húrrandi hrópandi óánægð með skiptingu og skipulag á sjávarútvegskerfinu, sérstaklega þegar kemur að auðlindagjaldinu. Það er alveg skýrt. Ég hef trú á því að það sé hægt að gera þetta ef menn vilja. Það hafa allir flokkar nema einn sýnt raunverulegan vilja til að tímabinda samninga í sjávarútvegi, fara svolítið að ráðum auðlindanefndarinnar frá árinu 2000. Á þessi spil var sýnt m.a. árið 2017 í þverpólitískum hópi allra flokka þá, menn voru tilbúnir til að setja það niður. Ég vil líka minna á að hæstv. innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, lagði fram frumvarp í ríkisstjórninni 2013–2016 sem fól í sér tímabindingu samninga. Það mál var hins vegar stoppað. Það mál var stoppað í þingflokki Sjálfstæðismanna. Það mál var líka stoppað af hálfu sjávarútvegsins. Það mál var hins vegar tillaga og framlag Framsóknarflokksins í þverpólitísku nefndinni þannig að Framsóknarflokkurinn er tilbúinn í tímabundna samninga í gegnum löggjöfina líkt og Vinstri græn. Eftir situr þá Sjálfstæðisflokkurinn og þar verðum við að láta birta svolítið til þegar kemur að sjávarútvegi.

Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt mál sem við erum að fjalla um, að við tökum raunverulega til þannig að við tryggjum annars vegar hagkvæmnina, verðmætasköpunina, skilvirknina, náttúrunýtinguna, sjálfbærnina í kerfinu sem er svo mikilvæg og svo þýðingarmikil fyrir okkur að við pössum upp á, samhliða því að sjávarútvegurinn fari að greiða meira fyrir auðlindina. Og kæru vinir, þið sem eruð að veiða loðnu núna, þið sem hafið verið að sjá um það að veiða úr auðlindinni fyrir okkur og fyrir þjóðarbúið, þið getið greitt meira til samfélagsins. Þið eigið að sjá sóma ykkar í því að gera það. Þið eigið að hafa frumkvæði að því og stíga fram til að ná sátt við þjóðina af því að þetta strandar á ykkur. Það eru mín skilaboð til þeirra sem eru í sjávarútvegi og eru með aflaheimildir og, eins og ég segi, einkarétt á afnotum og veiðum úr sameiginlegri fiskveiðiauðlind okkar. Annars vegar tímabundnir samningar, hins vegar markaðsgjald fyrir sjávarútveginn.

En það þarf meira til til þess einmitt að treysta trúverðugleika kerfisins og ýta undir traust almennings á því, að það sé ekki verið að svindla á kerfinu, að það ríki gegnsæi, að það ríki réttlátt regluverk í sjávarútvegi sem ýtir áfram undir hagkvæmni, ýtir áfram undir það að við hvetjum fyrirtæki til að fjárfesta og það hafa þau gert með gríðarlega góðum árangri að mínu mati. Við erum að sjá ofboðslega fjölbreytni og mikla nýsköpun innan sjávarútvegs. Við verðum að passa upp á að það haldist. Við sem erum hlynnt samkeppnisrekstri í frjálsum viðskiptum, við verðum að gæta að því, en frjáls viðskipti, samkeppni, nýting á auðlindum eins og þetta er núna gengur ekki ef réttlætiskennd almennings er misboðið, gengur ekki ef almenningur sér að það er misjafnt gefið, ár eftir ár, áratugi eftir áratugi. Og aftur er mynduð ríkisstjórn sem ætlar sér lítið að gera í hlutunum annað en að skipa nefnd og taka kannski á þessum lágmarksþáttum sem þarf að gera.

Við í Viðreisn munum halda ríkisstjórninni við efnið. Við munum halda áfram, aftur og aftur, að spyrja þessara spurninga, vekja athygli á ýmsum þáttum sem tengjast sjávarútvegi, bæði jákvæðum en líka þeim sem betur mega fara. Við munum halda áfram að biðja um skýrslur og passa upp á að það sé ekki setið á þeim og benda á það sem hefur verið breytt til þess að fela eitthvað. Við munum halda áfram að gera þetta eins og við gerðum allt síðasta kjörtímabil.

Ég er að mæla fyrir þessu máli aftur í fjórða eða fimmta sinn, fjórða sinn a.m.k., og við komum hér með pragmatískar og auðveldar leiðir til að bæta kerfið, ekki endilega að finna hjólið upp aftur og aftur, heldur það sem raunverulega bætir kerfið og gerir það bæði gegnsærra og skilvirkara. Í því felst þetta frumvarp.

Ég ætla að fara aðeins yfir það sem m.a. stendur í greinargerðinni til þess að fólk fái aðeins betri hugmynd um hvað um er að ræða. Þetta tengist heildaraflahlutdeild. Þetta tengist gegnsæi, hverjir eru tengdir aðilar o.s.frv. Þetta frumvarp er endurflutt nokkuð óbreytt og það hefur þríþættan tilgang. Í fyrsta lagi er því ætlað að auka gegnsæi fjárhagsupplýsinga með kröfum um skráningu á skipulegum hlutabréfamarkaði. Gríðarlega mikilvægt. Í öðru lagi felur það í sér kröfu um dreifða eignaraðild stærri útgerðarfyrirtækja. Það er alltaf verið að tala um þetta og ég veit ekki hvað ég er búin að hlusta á margar ræður hv. þingmanna hér, hef af og til greint vilja hjá ráðherrum, en það er ekkert gert. Með þessu frumvarpi er hægt að gera það og það er auðvelt. Við erum búin að fara margoft yfir þetta. Í þriðja lagi afmarkar frumvarpið með skýrari hætti en gildandi lög það hámark í heildaraflahlutdeild sem einstakir aðilar eða tengdir aðilar geta gert ráð fyrir.

Ný lög um stjórn fiskveiða voru sett 1990 að frumkvæði ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Borgaraflokks og höfðu að geyma ákvæði um frjálst framsal aflaheimilda. Þetta hafa margir gagnrýnt, ekki síst vinstri menn, eftir á. Ég er því ósammála, ég held að eitt af því mikilvæga fyrir skilvirkni í kerfinu sé að varðveita áfram frjálst framsal aflaheimilda upp á dínamíkina í kerfinu, upp á það að nýta bæði fjárfestingar og fjármagnið en ekki síst til þess að nýting aflans sem slíks verði sem best. Við sjáum árangurinn í því og það er m.a. afrakstur þess að við breyttum þessu árið 1990, undir forystu vinstri stjórnar, undir forystu vinstri manna á sínum tíma. Því hefur blessunarlega ekki verið breytt. Mig minnir að nýting á hverjum þorski hafi verið innan við 50% en er í dag komin í kringum 80% og við erum enn að finna leiðir til að nýta og fá verðmæti, auka fjölbreytni afurða úr fiski með alls konar frábærum hætti, í gegnum nýsköpun, í gegnum þróun o.s.frv. Þetta er hluti af því. Það er hægt að búa til stjórntæki sem ýtir undir verðmætasköpun, aukna framleiðni og rannsóknir, þróun og nýsköpun.

Þegar sýnt var, eftir árið 1990, að verulegur árangur hafði náðst í aukinni hagræðingu og hagkvæmni í rekstri, m.a. með samruna fyrirtækja, beitti þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sér fyrir því árið 1998 að ákvæði voru sett í lögin sem mæltu fyrir um hámark aflahlutdeildar hverrar útgerðar í einstökum tegundum og 12% heildaraflahlutdeild. Jafnframt var gert ráð fyrir að stærð eignarhluta í einstökum útgerðarfyrirtækjum yrði takmörkuð við 20% færi heildaraflahlutdeild þeirra yfir 8%. Það ákvæði var síðar fellt úr lögum árið 2002 fyrir forgöngu ríkisstjórnar sömu flokka. Á það reyndi því aldrei í framkvæmd.

Tilgangurinn með nýja ákvæðinu frá árinu 1998 var einmitt að stuðla að dreifðari eignaraðild, það var tilgangur löggjafans þá, og koma í veg fyrir að aflaheimildir söfnuðust á fáar hendur. Á þessum tíma voru öll útgerðarfyrirtæki langt innan við þau mörk sem lögin kváðu á um. Það er svolítill munur miðað við daginn í dag en stærsta félagið réð þá yfir 4,81% heildaraflahlutdeildar. Um lagasetninguna árið 1998 ríkti einhugur á Alþingi en djúpstæður ágreiningur reis um rýmkun ákvæðanna árið 2002 með niðurfellingu kröfunnar um dreift eignarhald allra stærstu fyrirtækjanna. Síðan hefur þróunin orðið sú, þrátt fyrir þá breytingu en kannski m.a. vegna hennar, að átt hefur sér stað ákveðin rekstrarhagræðing í sjávarútvegi fyrir utan alla tækniþróunina sem hefur haft veruleg áhrif á það hvernig við rekum sjávarútveg í dag miðað við árið 2002, ég tala nú ekki um árið 1992 eða 1982.

Nú eru hins vegar nokkur fyrirtæki farin að nálgast þessi mörk og það er verulegt álitaefni hvort krafan um 50% eignaraðild, svo að aðilar teljist vera tengdir, dugi til að ná markmiðum laganna. Það er vel hugsanlegt að um raunveruleg yfirráð geti verið að tefla í einhverjum tilvikum þó að eignaraðild sé undir 50% mörkunum. Eins geta menn haft áhrif á rekstur annars aðila með lánveitingum eða fjárhagslegri fyrirgreiðslu.

Í þessu ljósi má segja að reynslan hafi sýnt að rök standi til þess að afmarka þessi lagaákvæði með skýrari hætti svo að þau megi ná tilgangi sínum. Þá þykir eðlilegt að stærri útgerðarfyrirtæki séu skráð á almennum hlutabréfamarkaði til þess að tryggja betur gegnsæi í meðferð upplýsinga og í viðskiptum með hlutafé. Undir eins og fyrirtæki eru skráð á almennum hlutabréfamarkaði — og maður fagnar því auðvitað þegar maður sér þessi skref — þá er um leið komið ákveðið aðhald í gegnum regluverk hlutabréfamarkaðarins og það er nokkuð strangt, ýtir mjög undir gegnsæi.

Það er jafnframt ástæða til að endurvekja hugmyndir um takmarkaða hámarkseignaraðild í allra stærstu útgerðarfyrirtækjunum eða 10%. Það hlutfall vísar til skilgreiningar laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, á virkum eignarhlut í fyrirtæki.

Til að mæta þessum markmiðum er í frumvarpinu gert ráð fyrir veigamikilli breytingu með því að líta á aðila sem tengda í merkingu laganna ef einn aðili ræður yfir 1% eða meira af heildaraflahlutdeild og annar á 10% hlutafjár eða meira í hinum fyrrnefnda. Þetta þýðir að eigi aðili 10% hlut í útgerðarfyrirtæki þar sem annar aðilinn ræður yfir 1% eða meira af heildaraflahlutdeild er aflahlutdeild þeirra lögð saman til þess að meta hvort hún fari yfir mörkin. Þetta á einnig við ef óbein eignaraðild er með þessum hætti.

Einnig þykir rétt að telja aðila tengda ef annar ræður yfir meira en 1% heildaraflahlutdeildar og á kröfur á hinn þannig að ætla megi að sá fyrrnefndi geti haft áhrif á reksturinn. Aðilum er skylt að upplýsa Fiskistofu um þess háttar tengsl. Ég bið hv. þingmenn að hafa það í huga að þetta byggir m.a. á lögjöfnun, svipað því sem gerist í gegnum kröfu laga um fjármálafyrirtæki um tengda aðila.

Þá er gert ráð fyrir að öll útgerðarfyrirtæki sem fara með 1% heildaraflahlutdeildar eða meira skuli skráð á skipulegum verðbréfamarkaði. Þetta gerir kröfur um meira gegnsæi varðandi upplýsingar, eins og ég gat um áðan, og viðskipti með hlutabréf og dreifðari eignaraðild. Jafnframt er gert ráð fyrir að í útgerðarfyrirtækjum sem fara með 8–12% heildaraflahlutdeildar eigi enginn aðili, einstaklingur, lögaðili eða tengdir aðilar, meira en 10% af hlutafé, stofnfé eða atkvæðisrétti í viðkomandi aðila. Þessu ákvæði er ætlað að koma í veg fyrir frekari samþjöppun eignaraðildar í allra stærstu útgerðarfyrirtækjunum. Þetta skiptir máli. Ef við skoðum inntakið í þessum lögum þá held ég að þetta geti m.a. komið til móts við þá kröfu almennings að það verði aukið réttlæti í skipulagi og regluverki sjávarútvegsins.

Ákvæði frumvarpsins koma til viðbótar þeim ákvæðum sem þegar er mælt fyrir um í gildandi lögum. Þau standa því óhögguð eftir sem áður.

Frumvarpið hefur fyrst og fremst áhrif á stærri fyrirtæki. Möguleikar þeirra til frekari samþjöppunar eru þrengdir frá því sem er og kröfur um dreift eignarhald og gegnsæi umtalsvert meiri. Það er kominn tími til þess að við setjum fram skýrar og ríkar kröfur um dreift eignarhald og gegnsæi í sjávarútvegi. Minni og meðalstór fyrirtæki hafa á hinn bóginn sömu möguleika og áður til að hagræða í rekstri með því að sameinast. Ekki er á það fallist að kröfur um skráningu á almennum hlutabréfamarkaði eða takmarkanir á hlutafjáreign einstakra aðila í allra stærstu útgerðarfélögunum hindri hagræðingu í rekstri. Það er mjög erfitt að sjá að það séu einhverjar hindranir.

Ég vil hvetja hv. þingmenn til að kynna sér það sem segir í frumvarpinu sjálfu um greinarnar sem slíkar, um 1. og 2. gr. þessa frumvarps frá okkur í Viðreisn. En ég undirstrika að það er kominn tími til, þótt fyrr hefði verið, að við tökum markviss og skýr skref til þess að auka aðhald, auka gegnsæi en síðast en ekki síst auka réttlæti í sjávarútvegi þannig að þjóðin geti með vissu ekki eingöngu tryggt sinn þjóðarhlut, eðlilegt gjald fyrir aðganginn að auðlindinni, heldur þarf regluverkið að vera með þeim hætti að þjóðin treysti því að það undirstriki skynsamlegan rekstur í sjávarútvegi, veiti sjávarútvegsfyrirtækjunum tækifæri til að þróast, þroskast og hagræða og nái því besta fram í okkar sameiginlegu sjávarauðlind samhliða því að þjóðin viti að það sé farið vel með auðlindina og hún fái sanngjarnt gjald fyrir.