152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

geðheilbrigðismál.

[15:45]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Staðreyndin er samt sú að líðan barna hefur versnað. Einn af hverjum fimm unglingum á Íslandi hefur skaðað sig einu sinni eða oftar, og einn af hverjum þremur hefur hugsað um það. Árið 2016 sögðust 963 framhaldsskólanemar hafa reynt sjálfsvíg einu sinni eða oftar á ævinni. Og þetta var 2016. Nú fellur andleg heilsa ungs fólks innan nokkurra ráðuneyta, eins og heyrðist varðandi lýðheilsustefnuna og annað. Þessi mál eru væntanlega á forræði nokkurra ráðuneyta.

Þá langar mig að spyrja hvort hæstv. heilbrigðisráðherra deili þeim áhyggjum mínum að þessi málaflokkur gæti misst þann fókus og þann slagkraft sem hann þarf vegna þessa.