152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[16:23]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Það frumvarp sem varð að þeim lögum sem hér er verið að framlengja var upphaflega lagt fram af umhverfis- og samgöngunefnd að beiðni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Þetta er aðferð sem er viðkvæm og við eigum helst að spara nema fyrir skýrustu og einföldustu mál, eins og t.d. bara að leiðrétta hluti eða framlengja óumdeilda fresti. Í þessu tilviki var þessi leið farin með breytingu sem þegar á hólminn var komið reyndist vera mjög umdeild. Nefndin fékk fjölda sérfræðinga á sinn fund og þar kom í ljós að upphaflegt upplegg nefndarinnar og ráðuneytisins gat mögulega stangast á við þær greinar stjórnarskrárinnar sem meina stjórnvöldum að koma í veg fyrir heimkomu íslenskra ríkisborgara. Þegar upp var staðið fjallaði nefndin um málið frá miðjum mars og fram í lok maí núna í vor. Á öllum þeim tíma gafst hins vegar ekki tækifæri til að senda málið til almennrar umsagnar. Einn af ókostunum við að nefndir flytji sjálfar mál er einmitt að þá eru þau síður send til umsagnar. Þess vegna hefur almenningur ekki haft aðkomu að þessari breytingu sem þó hefur nokkuð með samgöngur við umheiminn að gera. Þess vegna langar mig að spyrja ráðherra út í samráðskaflann í greinargerðinni, vegna þess að þar kemur fram að vegna tímaskorts hafi samráð ekki farið fram.

Herra forseti. Hvernig fær það staðist? Það hefur væntanlega legið fyrir í nokkurn tíma að þetta bráðabirgðaákvæði þyrfti að framlengja. Hvers vegna í ósköpunum nýtti ráðuneytið ekki samráðsgáttina til að senda þetta mál til umsagnar almennings?