152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[16:30]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu var tekin ákvörðun um það í lok nóvember, að beiðni sóttvarnayfirvalda, að framlengja þetta ákvæði sem ellegar hefði runnið sitt skeið. Ég hef margoft svarað og talað fyrir því að slíkt ákvæði eigi miklu betur heima í sóttvarnalögum, enda er grundvallaður þar, en ekki í loftferðalögum, sá rökstuðningur sem þarf fyrir því. Þessi leið var því farin til að tryggja að við hefðum þó einhver tök á að fara fram á forskráningu frá öllum flugfélögum, sem reyndist vera þannig að sum voru tilbúin að gera það af fúsum og frjálsum vilja vegna tilmæla, en önnur gerðu það ekki fyrr en slíkt lagaákvæði var sett á laggirnar.

Ég ætla ekki að nota þennan tíma í að fara yfir málið í heild sinni og fara að rífast hér við hv. þingmann, en það verður að segjast alveg eins og er að umræðan á vordögum um þetta mál innan nefndarinnar var vægast sagt sérkennileg. Að sjálfsögðu lagði ráðuneytið ekki fram mál sem braut stjórnarskrá Íslands og að sjálfsögðu benti fullt af sérfræðingum á að sú túlkun sem hv. þingmaður lýsir hér væri mjög þröng og sérkennileg. En sem betur fer fundu menn leið til að friða allt og alla og afgreiða málið. Þetta tók gildi 1. júní og hefur gagnast sóttvarnayfirvöldum í því skyni að fá öll flugfélög sem fljúga til Íslands til að standa fyrir lágmarksforskráningu og sýna fram á að í það minnsta eitt vottorð sé með í för. Það hefur hjálpað til við að halda góðri stöðu í sóttvörnum á Íslandi.