152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[17:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil hér við 1. umr. um þessa framlengingu gildistíma í lögum um loftferðir koma inn á nokkur atriði en kannski aðallega rifja upp þá mikilvægu og ágætu umræðu sem átti sér stað á köflum hér þegar málið var afgreitt á sínum tíma. Það kom nefnilega til þingsins í allt öðrum búningi en það var síðan á endanum afgreitt í. Það verður svona að leyfa því að liggja hvernig fulltrúar ríkisstjórnarinnar líta þá umræðu sem átti sér stað í umhverfis- og samgöngunefnd. En bara til upprifjunar langar mig, með leyfi forseta, að rifja upp með hvaða orðum sá þingmaður stjórnarflokkanna sem hvað best setti sig inn í þessi mál lýsti þessu hér eftir að umhverfis- og samgöngunefnd hafði gjörbreytt málinu til batnaðar. Ég man nú ekki hvort hlé varð á 2. umr. eða hvort það var milli 2. og 3. umr., en, með leyfi forseta, langar mig að grípa niður í ræðu fyrrverandi hv. þingmanns og ráðherra, Sigríðar Á. Andersen, þar sem segir:

„Ég ætlaði undir þessari umræðu bara að þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir að hafa lagt í þá vinnu að breyta þessu frumvarpi stórkostlega í grundvallaratriðum frá því frumvarpi sem lagt var fram fyrst á milli 2. og 3. umr. að því er lýtur að Íslendingum og réttaráhrifum frumvarpsins á Íslendinga — og núna fyrir 3. umr. sem er lagabreyting sem lýtur að gildistíma frumvarpsins og þeirra laga sem verða þá að lögum. Gildistíminn er styttur verulega. Upphaflegt frumvarp gerði ráð fyrir nánast tveggja ára gildistíma sem að sjálfsögðu hefði verið fullkomlega óásættanlegt í ljósi tilgangs og markmiða þessa lagafrumvarps og í ljósi meðalhófs sem þingmenn hér eiga ætíð að hafa í heiðri.“

Mér finnst tilefni til að rifja upp þessi orð vegna þess að þetta náði ágætlega utan um þá vinnu sem var unnin í fyrra sem gekk út á að þrengja það rúma gildissvið laganna sem hæstv. ráðherra lagði upp með, bæði hvað varðar réttindi Íslendinga í þessum efnum og síðan gildistímann sem var mjög rúmur, svo vægt sé til orða tekið, í þessari fyrstu nálgun. Okkur ber auðvitað skylda í þessum efnum til að huga að samspili meðalhófs og brýnnar nauðsynjar og það hefur býsna margt breyst frá því að þessi frumvörp voru lögð fram fyrst. Ég held að hv. umhverfis- og samgöngunefnd verði að taka það til skoðunar hvort ástæða sé til að létta á einhverjum þeirra íþyngjandi þátta sem eru undirliggjandi í frumvarpinu og voru samþykktir á sínum tíma, eflaust að hluta til vegna þess hversu langt var gengið í fyrstu atrennu hæstv. ráðherra. Ég vil óska eftir því við hv. umhverfis- og samgöngunefnd að farið verði í gegnum þau íþyngjandi atriði sem þó voru kláruð á sínum tíma í frumvarpinu eins og það var samþykkt og skoðað hvort ástæða sé til að bakka með einhver þeirra í ljósi gjörbreyttrar stöðu í bólusetningum annars vegar og þekkingar á veirunni hins vegar.

Frumvarpið sjálft er ekki efnismikið, greinargerðin felur meira í sér, en hér er reiknað með því að ákvæði þetta falli úr gildi 1. júlí 2022. Mér hefði þótt það heldur langur líftími en vil þó líta svo á að það að gildistíminn falli úr gildi 1. júlí 2022 sé einhvers lags melding stjórnvalda þess efnis að litið sé svo á að þetta sé síðasta framlenging í ljósi þess að það er áætlað að ákvæðið falli úr gildi þegar litlar líkur eru á að þing sé að störfum miðað við hefðbundinn þingfundatíma. Væri það ekki raunin þá eru allar líkur á að fram kæmi breytingartillaga þess efnis að líftími málsins yrði styttur þannig að ákvæðið félli úr gildi hvort sem það væri 1. maí eða 1. júní 2022 í stað 1. júlí eins og stendur í frumvarpinu. En ég kýs að líta svo á að það sé vegna þess að hæstv. ráðherra meti það svo að þetta sé síðasta framlenging.

Ég ætla við 1. umr. ekki að hafa þetta mikið lengra en árétta ósk mína að nefndin taki sérstaklega hvert og eitt þeirra atriða sem snýr að íþyngjandi kvöðum á flugrekendur til skoðunar og velti því fyrir sér og meti: Er enn uppi sú staða sem réttlætir þessar íþyngjandi aðgerðir? Ég hef efasemdir um að svo sé. En miðað við það hvers lags grundvallarbreytingar voru gerðar á málinu í meðförum umhverfis- og samgöngunefndar á síðasta kjörtímabili þá er ég bjartsýnn á að hv. nefnd geti skoðað þetta með ígrunduðum hætti og komist þá að niðurstöðu um það hvort tilefni sé til að draga úr íþyngjandi aðgerðum og meðfylgjandi kostnaði fyrir ferðalanga og fyrirtækin sem veita þessa þjónustu.