152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

loftferðir.

154. mál
[17:15]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Já, það er svo sannarlega hægt að leggja fram frumvörp sem eru stutt í texta en skapa langar umræður. Það er dálítið mikilvægt að ræða af hverju við erum að ræða svona mikið um svo stutt frumvarp. Það er ekkert endilega að við séum á móti því að verið sé að gera kröfur um slíka sóttvarnaábyrgð á fólk sem kemur hingað, heldur það að þegar við setjum slíkar kvaðir á fólk þá þurfum við alltaf að horfa til meðalhófsins. Við þurfum líka að horfa til þeirra samninga sem við höfum gert við önnur ríki og annars. Það er kannski svolítið þannig í þessu að þegar við setjum ákveðin lög og lögin segja að íslenskir ríkisborgarar hafi eitthvað fram yfir aðra þá getur slíkt verið í bága við aðra samninga, eins og t.d. EES-samninginn um ferðafrelsi og jafnvel samninga við Norðurlöndin um hvernig við getum flutt þar auðveldlega á milli.

Á þessum krísutímum hafa mörg lönd verið að setja reglur, hinar ýmsu reglur, og sum hafa gengið of langt í þeim efnum. Má t.d. nefna að það voru mörg hundruð áströlsk börn sem festust erlendis fjarri foreldrum sínum þegar Ástralir ákváðu að loka á allt flug, þar með talið flug með ástralska ríkisborgara til landsins. Sjálfur sat ég fastur í Rúanda síðastliðið sumar þar sem búið var að loka fyrir allar flugferðir til landsins frá því 21. mars og þar til í ágúst. Sem betur fer gat ég fengið far með flugvél Sameinuðu þjóðanna sem var að flytja hjálparstarfsmenn þarna á milli. En það er nefnilega þannig að aðrir eru búnir að vera að setja lög og takmarkanir og við getum lært af því. Við getum lært af því sem var gert illa og við getum kallað okkur heppin að vera kannski ekki sótt til saka um að hafa brotið sum lög vegna þess að mörg önnur lönd voru að brjóta sams konar samninga sjálf með takmörkunum. En eigi skal böl bæta með því að benda á annað verra. Við skulum reyna að gera hlutina rétt og við skulum reyna að passa að þegar við takmörkum frelsi fólks þá gerum við það á þann máta að meðalhófs sé gætt.

Það hefur verið svolítið talað um það í ræðum hér á undan að ekki hafi verið haft samráð og í sjálfu frumvarpinu, í greinargerðinni með því, hjó ég einmitt eftir, eins og aðrir, að vegna tímaskorts hafi samráð ekki farið fram. En það er þannig, hæstv. ráðherrar sem hér eru inni, að það er akkúrat á krísutímum sem samráð þarf að hafa. Og af hverju segi ég það? Jú, ég hef smá reynslu af því að vera á krísutímum og má eiginlega segja að mitt starf undanfarin 15 ár hafi verið að vera endalaust á krísutímum. Þar höfum við lært að samráð er lykillinn að árangri. Við getum horft sjálf hingað til lands og horft á það hvernig hið svokallaða þríeyki starfaði hér fyrstu mánuðina eftir að við lentum í þessum heimsfaraldri. Þar voru þau þrjú ávallt tilbúin til þess að hafa samráð og upplýsa fólk og tala við aðra. En því miður hefur það verið þannig undanfarna mánuði eftir að stjórnvöld fóru að keyra hlutina meira áfram sjálf að þá virðist þetta orð hafa gleymst, svo mikið að það er ekki einu sinni tími fyrir það þegar verið er að búa til frumvörp.

Mig langar til þess að veita hæstv. ráðherrum sem hér sitja og þeim sem hlusta smá ráð um það hvað það er að hafa samráð og hvers konar samráð virkar þegar við erum á krísutímum. Númer eitt er að halda fólki upplýstu, tala við aðila frá upphafi, ekki bara þegar allt er tilbúið heldur í öllu ferlinu, vegna þess að ef við gerum það þá hvetjum við til þess að andstæðar skoðanir komi fram og við fáum áskoranir í tengslum við það sem við erum að leggja til. Þar með er það betur hugsað og betur unnið, ef við vinnum saman.

Við þurfum líka að vinna sem eitt teymi hér. Innan þessara veggja hef ég komist að því að það að vinna sem eitt teymi að hlutunum er eitthvert bannorð. Það að vera með samstarf um það sem gera skal er bannað. Helst eigum við að halda hlutunum að okkur alveg þangað til á síðustu stundu og þá fyrst sýna þá. Nei, það er nefnilega ekki svona sem hlutirnir virka. Í alvörusamráði er reglulegt samtal við alla aðila, reglulegt samtal og sér í lagi við þá sem eru í framvarðalínunni, í þessu tilfelli t.d. við flugrekendur eða jafnvel fólkið sem vinnur við að þurfa að fylgja þessum reglum. Það getur nefnilega komið með ábendingar um hvað er betur hægt að gera, hvar við höfum ekki hugsað hlutina nógu vel í lagasetningunni og komið með þá hluti hérna inn. Síðan þarf að horfa reglulega á það sem búið er að gera og vera tilbúin til þess að viðurkenna að við erum ekki að ná markmiðum, koma þá og setja egóið til hliðar og segja: Það er hægt að gera betur, viljið þið vinna með mér við það og ná þannig hlutunum áfram?

Mig langar að hvetja hæstv. ráðherra sem eru núna að leggja fram fleiri og fleiri lög til bráðabirgða til að auka það samráð sem þeir hafa, bæði innan þings og utan. Ef við ætlum að komast í gegnum þessa krísutíma á farsælan hátt þurfum við öll að vinna saman.