152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[18:33]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er von mín að nýtt frumvarp fái þinglega meðferð, sem þetta frumvarp hefur ekki fengið. Þetta frumvarp hefur ekki einu sinni verið sett í hendur stjórnarandstöðuflokka eða formanna þeirra eða utanríkismálanefnd eða neins, heldur hefur því verið haldið mjög frá öllu samráði. Við töluðum hér á undan um Covid og hvað við höfum verið að gera á krísutímum og ég held að hæstv. ráðherra ætti kannski að hlusta á nokkuð af því sem sagt var um samráð í því sambandi og mikilvægi þess.

En í dag gerðist það að fjarskiptanet Íslands eru komin á óvissustig almannavarna. Ég held, það er samkvæmt minni vitneskju, að þetta sé í fyrsta skipti sem við nýtum okkur almannavarnaástand til að skilgreina hættu á því hvað geti komið fyrir fjarskiptanet okkar. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra, sem fór reyndar með almannavarnir í sinni fyrri ráðherratíð, hvernig hægt sé að tryggja áfallaþol þegar kemur að því að samhæfa aðgerðir með erlendum aðilum en ekki bara íslenskum fjarskiptafyrirtækjum.