152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[19:47]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Forseti. Við ræðum í grunninn mjög stórt mál þegar við ræðum um frumvarp um breytingu á lögum um fjarskipti, lögum um Fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri (áfallaþol fjarskiptaþjónustu og fjarskiptaneta). Þetta er þjóðaröryggismál. Hér er um almannahagsmuni að ræða. Þetta er eitt af þessum grundvallarmálum sem skipta miklu máli og ég hef lengi kallað eftir því úr þessum ræðustól að við þurfum að styrkja þjóðaröryggi og þjóðaröryggislöggjöf fyrir landið.

Nú er kominn tími á að þjóðaröryggisstefnan frá 2016 verði endurskoðuð. Þetta er grundvallarmál sem tengist mjög inn í það. Hér hefur verið rætt í dag um flutningskerfi raforku, sem er náttúrlega mikið og stórt þjóðaröryggismál. Við höfum kannski áttað okkur á því í umræðunni undanfarnar vikur. Fyrir akkúrat tveimur árum þegar slæmt veður gekk yfir Norður- og Austurland og flutningskerfi raforku fór úr skorðum, þá gerðist það á þeim tímapunkti í fyrsta skipti að meginflutningskerfi raforku í landinu, byggðalínan, brást. Fram að því höfðum við frekar kynnst því þegar t.d. dreifikerfi Rariks eða Orkubús Vestfjarða gáfu eftir. En þarna urðu truflanir á stóra kerfinu, háspennta kerfinu. Fyrir mér er þetta mál á þeim skala. Þetta er þjóðaröryggismál.

Það sem við ræðum hér sérstaklega er starfsemi ljósleiðaratengingar og grunnkerfisins undir fjarskiptunum, það sem nútímaheimurinn byggist á, nettækni og slíkt. Þá erum við komnir í netöryggismálin, sem vinna reyndar alla þvert á alla grunninnviði. Og það er einmitt það sem er að gerast bara þessa dagana hjá okkur og hefur verið að gerast — það er kannski það alvarlegasta í dag þegar við erum komin á það stig sem raun ber vitni, en við höfum fengið mjög slæm dæmi á undanförnum árum varðandi netöryggismálin.

Nú hef ég verið formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins í fjögur ár og við sem höfum tekið þátt í því starfi höfum kynnst því þessi þrjú, fjögur ár að þetta hefur verið stóra málið í umræðunni á NATO-þinginu og, ef ég sletti, með leyfi forseta, það sem á ensku er kallað „cyber security“, því að það hefur hreinlega verið stóra málið þangað til kannski núna síðustu vikur eða mánuði þegar Úkraínumálið varð að þessu stóra máli. „Hybrid warfare“, svo ég sletti aftur á ensku, eða fjölþáttaógnun, og þetta og netöryggi sem er samtengt. Hér erum við í sjálfu sér að ræða um það. Þetta er mjög stórt mál inn í fjórðu iðnbyltinguna, 5G-væðinguna. Þetta er raunverulega kerfið sem allt annað byggist á, 5G og það sem við erum að ræða, í fjórðu iðnbyltingunni.

Fyrir næstum tveimur árum lögðum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins fram skýrslubeiðni um innviði og þjóðaröryggi í þó nokkuð mörgum liðum. Beiðnin var í átta liðum og í einum liðnum, e-lið, óskuðum við eftir að forsætisráðherra myndi flytja Alþingi skýrslu um stöðu grunninnviða samfélagsins og mikilvægra samfélagslegra innviða sem varða þjóðaröryggi og hvernig þeir hagsmunir væru tryggðir innan íslenskrar stjórnsýslu út frá ábyrgð og málefnasviði ráðuneyta og íslenskri löggjöf. Í e-lið var spurt um hvort helstu fjarskiptakerfi Íslands hefðu verið skilgreind með tilliti til þjóðaröryggis, svo sem jarðsímakerfið, ljósleiðarakerfið, Tetra-kerfið, farsímakerfið, gagnastrengir til útlanda, langbylgjan, RÚV og FM-útvarpssendingar.

Í byrjun þessa árs kom skýrslan frá hæstv. forsætisráðherra þar sem flestum spurningunum, sem voru í átta liðum, var svarað og í þessari umræðu getur verið býsna fróðlegt að lesa svörin sem þar eru. Í svörum við skýrslubeiðninni er mikið talað um almannahagsmuni, þjóðaröryggishagsmuni, sem mér hefur þótt vanta upp á að væri gert almennt í umræðu í þingsal og við erum langt á eftir nágrannalöndunum í þeim efnum. Ég hef kallað eftir þjóðaröryggislöggjöf sem snýr að þessum grunninnviðum samfélagsins. Sem dæmi væri hægt að ræða samgöngur, flutningskerfi raforku, fjarskipti og þá grunninnviði sem allt byggir á. Svo getum við talað um fæðuöryggi og ýmislegt fleira sem er nú yfirleitt dregið fram í svörum hæstv. forsætisráðherra við skýrslubeiðninni.

Þetta er ágætisumræða hér í dag og áhugavert sem fram kom í máli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur áðan varðandi aðkomu NATO að þessu máli. Það er bara fínt að fá það í framhaldinu inn í umræðuna og inn í vinnu hæstv. umhverfis- og samgöngunefndar sem fær málið til sín, jafnvel bara í fyrramálið, að það er þarna vinna, það er þessi sameignarsamningur milli Mílu, varnarmálaskrifstofu, fyrir hönd NATO og einhverra fleiri aðila, um hvernig farið er með rekstur og viðhald á ljósleiðarastrengnum, stofnstrengnum. Það er stofnstrengurinn, sem var tekinn í notkun fyrir 30 árum, sem er undirstaðan undir þessu fjarskiptakerfi sem við búum við í dag. Þetta mál snýst um hvernig við fyrir hönd Íslands verjum þá grunninnviði sem þessi strengur er. Stofnstrengur þessi var tekinn í notkun í byrjun árs 1991, minnir mig. Mannvirkjasjóður NATO lagði hann en hann var fyrst og fremst lagður til þess að byggja upp ratsjárkerfið á Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli, við Höfn í Hornafirði og síðan á Keflavíkurflugvelli. Þetta var bæði til að fylgjast með umferð í kringum landið og síðan til flugumferðarstjórnar.

Strengurinn hefur gegnt gríðarlegu hlutverki en síðan hefur byggst ofan á hann allt þetta gagnamagn og hafa það verið gríðarlegar framfarir fyrir landið. Það var stórt skref þegar strengurinn kom. Það hefur komið fram í máli hv. þingmanna í dag að það eru fimm strengir af átta sem eru í eigu Mílu og síðan þrír sem þessi samningur nær yfir, sameignarssamningurinn.

Þetta er stórt mál. Við höfum skamman tíma til að fara í gegnum það. Efnið er mikið. En það sem ég vil fyrst og fremst fagna hér er að við séum farin að ræða þau mál sem snúa að grundvallarhagsmunum, öryggissjónarmiðum þjóðarinnar. Við þurfum að ræða þetta nákvæmlega varðandi flutningskerfi raforku og dreifikerfi, að þessara þjóðaröryggishagsmuna sé gætt. Við þurfum að ræða þetta varðandi samgöngur. Þannig að ég vona að þetta sé bara byrjunin á góðri vinnu sem snýr að þessu og að meira verði unnið í þessum málum hér í þinginu á komandi árum, á næstu misserum, vegna þess að þegar maður les svar frá hæstv. forsætisráðherra við skýrslubeiðni — það er mjög áhugavert bara fara í gegnum þessa 14 síður, mikið efni og fjöldamargar spurningar, hvernig við stöndum að málum. Það er hægt að fara ótrúlega víða í þessu en það gefst ekki tóm til þess í stuttri ræðu.

En eins og ég kom inn á þá þurfum við virkilega að ræða þjóðaröryggisstefnuna. Það er margt sem hefur breyst á fimm árum, frá 2016 þegar hún var samþykkt hér í þinginu. Það er kominn sá fimm ára tími sem talað var um að ætti að líða áður en hún yrði endurskoðuð. Við þurfum virkilega að taka okkur á og fara lengra inn í þetta.

Það er áhugavert að skoða tillögur átakshópsins eftir desemberveðrið 2019, sem kom raunverulega af stað þeirri umræðu sem er núna vegna þess að þar voru, minnir mig, í kringum 500 tillögur. Margar þeirra snúa svolítið að grundvallarspurningum um þjóðaröryggi. Reyndar vísar átakshópurinn í mars 2020, sem vann þessar tillögur eftir desemberveðrið 2019, t.d. í stefnu í almannavarna- og öryggismál ríkisins fyrir árin 2015–2017, skýrslu sem hefur kannski ekki verið allt of mikið í umræðunni. Hér er farið í gegnum það. Í þeirri skýrslu er litið til fjarskipta, net- og upplýsingakerfa, fjármálakerfa, heilbrigðisþjónustu, löggæslu, viðbúnaðar- og neyðarþjónustu, matvæla, fæðu- og neysluvatns, fráveitukerfis, orkukerfis, samgöngukerfis og æðstu stjórnar ríkisins.

Það er því auðvelt að sjá hversu gríðarlega stórt og víðfeðmt þetta svið er. Hér á þessari löggjafarsamkundu hefur ekki verið tekist á við þessi mál með sama hætti og við þekkjum t.d. á Norðurlöndunum og nánast um alla Evrópu. Það eru kannski þrjú, fjögur lönd í Evrópu sem eru á sama stað og við og eru ekki með þjóðaröryggislöggjöf sem snýr að grundvallarhagsmunum þar sem það er ríkisins að halda virkni og passa upp á, sem við erum svo sannarlega að reyna að gera hér.

Það hefur verið töluvert rætt um eignarhald á Mílu og erlenda fjárfestingarsjóði og náttúrlega þessi kaup. Ég tel að okkar hlutverk hér sé fyrst og fremst að koma fram með lög sem verja hagsmuni Íslendinga, sem snúa að almannahagsmunum, og síðan þjóðaröryggisvinkillinn. Það er raunverulega það sem við eigum að tryggja og það sem við eigum að tryggja á öllum þessum sviðum.

Ég ætlaði ekki að hafa þetta mikið lengra, það er bara ekki tími til að fara mjög djúpt inn í þessi mál. Ég vísa til þessarar skýrslu og svara hæstv. forsætisráðherra í þessu máli við skýrslubeiðninni fyrir tæpum tveimur árum. Það er áhugavert plagg inn í þessa umræðu. Þar er af mörgu að taka. En ég vil hins vegar fagna því sem hefur þó verið gert hér, að við erum vonandi að hefja umræðu um þau grundvallarmál sem snúa að samfélagi okkar og öryggismálunum.

Við sem tökum þátt í alþjóðastarfi þingsins erum víða, og eins og ég tiltók í NATO-þinginu hef ég oft lýst því þannig að við Íslendingar séum í ákveðinni búblu hér á landi — og þá kinka þingmenn kolli sem þekkja til þessara mála og starfa erlendis og eru í slíkum störfum. En fyrir mér hefur þetta verið svolítil búbla þegar maður fer að kynnast þessu, og svo sem áður. En við þurfum að stækka þennan heim inn í þennan þingsal og víkka þessa umræðu vegna þess að það er svo sannarlega þörf á því. Og þegar við förum inn í fjórðu iðnbyltinguna og 5G-væðinguna og allt sem við höfum verið að horfa til þá verðum við að passa að vera ekki allt of barnaleg í nálguninni og verja okkar ýtrustu hagsmuni með alvörulöggjöf. Vonandi er þetta fyrsta merkið inn í þá vinnu. En ég vona svo sannarlega að hún verði miklu ítarlegri á svo mörgum sviðum. Við erum farin að sjá þetta í þessu máli, við erum farin að sjá þetta í loftferðalögunum sem voru lögð fram síðasta vetur, við erum farin að sjá þetta aðeins í umræðu um flutningskerfi raforku, að þetta eru grundvallarmál sem eru að detta hér inn. En það sem sá sem hér stendur kallar eftir er heildarþjóðaröryggislöggjöf fyrir Ísland til að verja ýtrustu hagsmuni þjóðarinnar.