152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[20:04]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef, síðan ég byrjaði hér á þingi fyrir fimm árum, kallað eftir umræðu um þjóðaröryggismál almennt, að við verjum þjóðaröryggi með löggjöf og pössum vel upp á þessa risastóru hagsmuni. Heimurinn hefur breyst alveg gríðarlega hratt, ég myndi gefa þessu þrjú til fjögur ár í NATO-þinginu. Það hefur orðið grundvallarbreyting á þessum umræðum á örskömmum tíma. Ég hefði viljað kalla miklu fyrr eftir ítarlegri löggjöf um þessi mál. Ég held að þetta séu fín skref sem verið er að stíga núna og vonandi eru það bara fyrstu skref. Við höldum síðan áfram að byggja ofan á þessi mál. Það er í grunninn það sem ég vildi segja. Mér finnst ágætlega tekið á þessu máli. Þingið er að koma saman og það er einhver pressa og allt það. Við getum svo rætt hvort það hefði mátt ganga betur frá málum í maí þegar við kláruðum starfið hér, eða í júní. Þetta hefur verið ákveðið ástand. Þetta er mjög stuttur tími, ég viðurkenni það. Við erum að fá þetta til umhverfis- og samgöngunefndar á morgun, risamál. Þetta er stuttur tími en þau atriði sem við erum að taka inn núna, varðandi löggjöf sem snýr að Fjarskiptastofu, eru tiltölulega einföld. En við þurfum að gera svo miklu betur í stóru myndinni og það er það sem ég kalla eftir og ég held að hv. þingmaður sé sammála mér um að við þurfum að gera betur þar og byggja upp heildstæða löggjöf um þessi mál sem ver okkur fyrir framtíðinni því að hlutirnir gerast ógnarhratt, það sem snýr að öllum þessum málum.