152. löggjafarþing — 9. fundur,  13. des. 2021.

fjarskipti o.fl.

169. mál
[20:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek undir með hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni hvað þetta varðar. Honum er auðvitað ákveðin vorkunn með þennan málaflokk sem hann þekkir jafnvel betur en flestir í þessum þingsal. Hann saknaði þess að ekki hafi verið farið betur yfir þessi mál, ekki síst í ljósi hraðra breytinga á umliðnum árum. Það er ósköp skiljanlegt að hann verji ríkisstjórnina sem hann styður en ég skil vel að það fari pínulítið í taugarnar á honum að ekki skuli hafa verið gert betur. Og kannski er ekki mikils að vænta, við erum með einn flokk hér á þingi sem greiddi ekki atkvæði með þjóðaröryggisstefnunni sem var samþykkt hér 2016. Það er flokkur Vinstri grænna sem er í forsæti fyrir ríkisstjórninni og á um leið að vera í forsæti fyrir þjóðaröryggisráðinu. Þetta er kannski ekki efst á dagskránni á aðgerðalistanum hjá þeim flokki og þetta kann að vera ein birtingarmynd þess. Ég dreg líka fram að frá því að þjóðaröryggisályktunin var samþykkt hér hefur ekkert mikið meira gerst annað en að þróunin hefur verið ör — einhverjar snertingar en engar aðgerðir og ekkert aðgerðaplan hjá okkur. Þá spyr ég enn og aftur: Hvar er þessi fíni samráðsvettvangur, þjóðaröryggisráð? Það er vettvangur sem á að nýta miklu meira í þau mál sem við erum að ræða um hér.

Svo skilaði forsætisráðherra þessari fínu skýrslu sem svarar mjög mörgum spurningum en það er ekkert gert við skýrsluna. Ég hefði einmitt haldið, þegar þessi svör komu í skýrslunni í upphafi ársins, að við værum tilbúin þegar farið væri í svona umfangsmikil umskipti á eignarhaldi á Mílu. Hvað verður um innviðina? Það á að vera búið að svara því. Hvernig tryggjum við þjóðaröryggi? Það á að vera búið að ganga í það. Það er ekkert gert með þessa skýrslu sem er bara skilað hingað inn en ráðuneytið situr eftir og á því ber ríkisstjórnin fulla ábyrgð.