152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Í ár eru 200 börn og ungmenni sem eru á flótta stödd á Íslandi yfir hátíðirnar. Þau eiga það öll sameiginlegt að hafa sótt um vernd á Íslandi. Mörg þeirra er á bilinu núll til tveggja ára og sum hver eiga ófædd systkini. Sum þeirra hafa ekki enn fengið úrlausn sinna mála og bíða því í óvissu og óöryggi yfir hátíðirnar á meðan allt lokar. Öðrum hefur verið neitað um vernd og þau bíða þess óttaslegin að vera vísað úr landi og send aftur á flótta á meðan við hin komum saman og njótum hvert annars, gjafa, matar, friðar og öryggis.

Fyrir sex árum vöknuðum við öll upp við skelfilega mynd af tveggja ára barni á ströndinni sem hafði drukknað eftir að hafa reynt að flýja til Evrópu. Heimsbyggðin grét Alan litla og þjóðarleiðtogar víðs vegar um Evrópu opnuðu hjarta sitt og leyfðu mannúð að ráða för um stund. Nú, sex árum síðar, höfum við öll gleymt Alan og öðrum börnum á flótta. Við höfum látið ósanngjarnar og ómannúðlegar reglur ráða för. Þess gjalda þau 200 börn sem þegar eru komin til landsins. Nú yfir hátíðirnar njóta þessi börn stuðnings, verkefnis sjálfboðaliða Solaris og velvildar stuðningsaðila þeirra, og veita viðtöku lítilli vetrargjöf sem ætlað er að gleðja hjarta þeirra örlítið yfir hátíðirnar.

Ég hvet Alþingi og hæstv. innanríkisráðherra til að fylgja fordæmi Solaris, heiðra minningu Alans Kurdis, sýna alvörukærleika í verki og veita þeim börnum sem hingað eru komin og fjölskyldum þeirra þá jólagjöf að fá tafarlaust hæli hér á landi af mannúðarástæðum.