152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Virðulegur forseti. Oft hefur verið vakin athygli á því hversu mikilvægt er að skapa vinnumarkað fyrir alla. Allt eða ekkert er slæm stefna í atvinnumálum. Eins og staðan er núna eru hlutastörf eða sveigjanleg störf nánast ekki í boði. Störf þar sem starfshlutfallið er 20–70% eru af mjög skornum skammti. Þessi störf snúast um að allir í þessu samfélagi séu hluti af vinnumarkaði ef þeir óska þess. Vilji stjórnvalda til að bregðast við þessu er jafnt sem enginn. Að einangra einstaklinga sem eru ekki með fulla heilsu eða geta ekki unnið fullt starf er ekki boðlegt í því velferðarsamfélagi sem rætt er um og því sem stjórnvöld segjast standa fyrir. Það er gott fyrir efnahaginn að fólk sé á vinnumarkaði og mikilvægt fyrir líkamlega og andlega heilsu einstaklinga. Rúmlega 10.000 einstaklingar voru atvinnulausir í lok nóvember, af þeim höfðu rúmlega 4.000 manns verið atvinnulausir í meira en ár.

Tölum aðeins um félagslega einangrun. Félagslega einangraður einstaklingur er sá sem hefur ekki færi á nauðsynlegri félagslegri tengingu við aðra einstaklinga. Það að vera félagslega einangraður eykur líkur á líkamlegum og andlegum veikindum og það styttir líftíma fólks. Í stað þess að veita fólki tækifæri til virkrar þátttöku í atvinnulífi án þess að skerða bætur þess virðist stefnan vera að einangra þessa einstaklinga til að þeir séu líklegri til aukinnar notkunar á heilbrigðisþjónustu. Atvinna snýst um félagsskap, að rjúfa félagslega einangrun, vinna gegn fátækt. Því lengur sem fólk er atvinnulaust því erfiðara er að koma aftur inn á vinnumarkað. Það þarf sveigjanleika og möguleika á breytilegu starfshlutfalli, koma fleira fólki út í atvinnulífið án skerðinga tafarlaust því að það er öllum til bóta.