152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[21:48]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla nú alveg að gefa ríkisstjórninni það að þó að þessi greinargerð sé efnislega ekkert sérstaklega sannfærandi þá eru falleg orð og falleg hugmyndafræði færð þarna í búning, en rökstuðninginn vantar, eins og ég hef rakið í þessum umræðum.

Já, ég held að samsetning ríkisstjórnarinnar og þessi breiða lína, sem stundum er kölluð ysta vinstrið og ysta hægrið, saman í ríkisstjórn geri það að verkum að hæstv. forsætisráðherra líði best með mannréttindamálin á sinni könnu. Ég held að öðrum þræði snúist það um að þeim málaflokki sé kannski ekki vel komið annars staðar að mati þeirra sem lengst eru til vinstri í þessari ríkisstjórn.