152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[22:29]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu hér áðan, fínasta yfirferð yfir þetta mál. Hv. þingmaður boðar að það verði kannski farið nánar ofan í einstaka málaflokka og ráðuneyti eftir því sem umræðunni vindur fram. Ég stenst samt eiginlega ekki mátið af því að ég veit að hv. þingmaður hefur látið sig menningarmál miklu varða og það var nú verið að ræða það ráðuneyti hér rétt áðan og uppskiptingu þar. Það hefur svo oft verið talað um að menningin væri hálfpartinn einhver skúffa í menntamálaráðuneytinu. Svo erum við allt í einu komin á þann stað að menningarmálunum er lyft upp samkvæmt þessu en menntamálunum dreift. Hvaða áhrif hefur þetta? Er þetta t.d. ekki bara gott fyrir menningarmálin, svo við tölum bara um þau, þó að þau séu þarna allt í einu komin inn í viðskiptaráðuneyti?