152. löggjafarþing — 11. fundur,  15. des. 2021.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

167. mál
[23:21]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið minnst á gula miða og bland í poka og það var eitt ráðuneyti sem minnst var á í aðdraganda kosninga, þ.e. hugsanlegt innviðaráðuneyti. Þarna er talað um málaflokka sem eru að flytjast til ráðuneytisins, m.a. húsnæðis- og mannvirkjamál og skipulagsmál. Talað er um að þetta eigi að auka skilvirkni og samþætta. Með leyfi forseta, þá stendur hérna:

„Með breytingunni er stefnt að því að tryggja betri samhæfingu með sveitarfélögum, aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði og að áætlanir í samgöngumálum, húsnæðismálum og skipulagsmálum verði samþættar og lagðar fram samhliða þannig að tryggja megi að samgöngur séu í þágu byggðar og loftslags.“

Í dag birtist frétt í fjölmiðlum um að núna gætum við bara farið að byggja sumarbústaði án þess að fá leyfi, þannig að við getum bara farið að drita niður húsum út um allar koppagrundir. Er þetta þessi samþætting og skilvirkni sem verið er að boða þarna?