152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

forgangsröðun ríkisútgjalda.

[14:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég nefndi hér áðan að það eru Sjúkratryggingar Íslands sem eiga að sjá um að gera slíka samninga. Þegar spurt er hvort ég vilji beita mér fyrir því að gera breytingar á fjárlagagerðinni núna í þinginu til að tryggja að við getum náð betri árangri, betri stýringu fjármuna, þá get ég ekki annað en svarað því játandi. Ef ég mun rekast á það í þinglegri meðferð málsins að það sé eitthvað vanfjármagnað hjá Sjúkratryggingum til að gera þetta þá held ég að við þurfum að taka það til skoðunar. En í fljótu bragði er þetta frekar einfalt. Ef Sjúkratryggingar eru í dag að gera samninga um greiðslur vegna aðgerða sem er hægt að framkvæma annars staðar með ódýrari hætti þá eru Sjúkratryggingar ekki að rísa undir hlutverki sínu við að stýra peningunum í samræmi við tilgang þeirrar stofnunar.