152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

upphæð barnabóta.

[14:27]
Horfa

félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Fjárhæðir barnabóta eru að hækka núna ásamt neðri og efri skerðingarmörkum tekjustofnsins. Það er eitthvað sem við erum að gera akkúrat núna og síðan það sama með skerðingarmörkin í framhaldinu. Það sem hv. þingmaður spyr mig um hér er í raun hvort mér finnist að við eigum að gera betur almennt, ef ég skil hv. þingmann rétt, fyrir allar barnafjölskyldur. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum fyrst og fremst að einbeita okkur að þeim sem hafa minna á milli handanna. Þar þurfum við að horfa á rétt barna til mannsæmandi lífs. Ég skil þá hugsun að öll börn eigi sama rétt til þess að fá bætur en ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að beita kerfunum okkar með þeim hætti að þau sem minnst hafa á milli handanna fái mest eða fái öllu heldur meira.