152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

um fundarstjórn.

[14:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Alþingi er og á að vera málstofa ekki síður en löggjafi. Nú er búið að mæla fyrir 14 stjórnarmálum það sem af er vetri en frá stjórnarþingmönnum hefur ríkt þögnin ein í níu af þessum 14 málum. Það er rúm vika síðan Framsóknarþingmaður mætti í ræðustól um stjórnarmál. Það eru tvær vikur síðan síðasti og reyndar eini þingmaður Vinstri grænna tjáði sig um stjórnarmál í þingsal. Hvar eru stjórnarliðarnir? Fylgdi stjórnarsáttmálanum eitthvert þagnarbindindi? Hvar voru stjórnarliðar t.d. í gær þegar við ræddum um fjáraukalög og sérstaka jólauppbót til öryrkja? Hver er skoðun þeirra á því máli? Ætla stjórnarþingmenn að standa með frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem ekki gerir ráð fyrir slíkri uppbót eða styðja tillögu minni hlutans (Forseti hringir.) um að standa með öryrkjum? Við vitum það ekki af því að hingað mætti ekki hræða í ræðu.