152. löggjafarþing — 12. fundur,  16. des. 2021.

kosningalög.

189. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á kosningalögum, nr. 112/2021, fyrir hönd stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Þetta mál er þannig til komið að á síðasta þingi voru kosningalög endurskoðuð og samþykktar breytingar sem taka gildi núna um áramótin, 1. janúar 2022. Við gildistöku laganna, með breytingunum sem sagt, falla brott lög um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, og lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.

Komið var að máli við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um að flytja þetta frumvarp og ákvað nefndin að verða við því vegna þess að við teljum brýnt að þannig sé búið um hnútana að hægt sé að halda hér þær atkvæðagreiðslur og íbúakosningar sem sveitarfélögin í landinu hafa ráðgert og tilkynnt um og sem halda þarf á fyrri hluta næsta árs, þ.e. fram að sveitarstjórnarkosningum sem eru ráðgerðar 14. maí 2022.

Því er það svo að í þessu stutta frumvarpi, sem er einungis tvær greinar, stendur í 1. gr. eftirfarandi, með leyfi frú forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 7. tölul. 2. mgr. 22. gr., 143. gr. og 3. tölul. 144. gr. skulu lög um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, og lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, halda gildi sínu við atkvæðagreiðslur meðal íbúa sveitarfélaga á grundvelli 38. gr., 107. gr. og 119. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sem fara fram fyrir 14. maí 2022. Fer um framkvæmd þeirra atkvæðagreiðslna eftir lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, og lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, eftir því sem við getur átt.“

Svo við snúum þessu yfir á mannamál, frú forseti, þá þýðir þetta einfaldlega það að hægt er að halda ráðgerðar íbúakosningar, sem okkur skilst að séu a.m.k. einar fernar, sem snúast m.a. um sameiningu sveitarfélaga og jafnvel fleira, í upphafi árs, febrúar, mars. Þær verða framkvæmdar í samræmi við gömlu löggjöfina þó að breytingar á kosningalögum gangi í gildi um áramótin. Fyrir þessu liggur líka sú ástæða í fyrsta lagi það sem ég nefndi í upphafi, að með breytingunum sem taka gildi um áramótin á kosningalögunum falla hin tvenn lögin brott. En það er þarna ákveðið gat sem myndast, ef svo má að orði komast, þ.e. að beðið er eftir nýju frumvarpi, væntanlega verður það hæstv. innviðaráðherra sem leggur það fram, sem ætlað er að komi fram núna á vormánuðum 2022, sem varðar breytingar á sveitarstjórnarlögunum. Hér hefur hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekið að sér með mjög kvenlægum hætti að stoppa í þetta gat svo hægt sé að halda þessar íbúakosningar.

Ég leyfi mér í lok míns máls hér að gera það að tillögu minni að frumvarpið gangi beint til 2. umr.