152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

vegurinn um Vatnsnes.

[15:44]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Hæstv. forseti. Vatnsnesvegur í Vestur-Húnavatnssýslu er á kafla umferðarmesti malarvegurinn í landshlutanum og á landinu öllu. Vegurinn er stórhættulegur og úr sér genginn og stendur engan veginn undir þeirri umferð sem um hann fer. Þar er ekki einungis vaxandi umferð ferðamanna, sem skiptir miklu fyrir héraðið, heldur er vegurinn lífæð byggðarinnar og ekið daglega með skólabörn um holótta skemmda vegi þar sem jafnvel stuttar vegalengdir verða að dagpörtum á ferðalagi við ömurlegar og viðsjárverðar aðstæður. Nauðsynlegt er að byggja upp veginn, breikka og leggja á hann bundið slitlag sem allra fyrst. Vatnsnesvegur er enn þá áætlaður á þriðja tímabili samgönguáætlunar, nokkuð sem íbúar landshlutans geta ekki við unað og við sem hér störfum ættum ekki að gera heldur. Fyrir liggur að aftur verði boðinn út 2–3 kílómetra kafli við Hólabrú í Vesturhópi á nýju ári og svo 5 kílómetra kafli á vestanverðu Vatnsnesi og er það vel. Hér þarf hins vegar miklu meira til en smáskammtalækningar frá einu ári til þess næsta. Það þarf aðgerðir strax við uppbyggingu á Vatnsnesvegi þannig að hann geti gegnt því mikilvæga hlutverki sem honum er ætlað.

Í stjórnarsáttmála segir, með leyfi forseta:

„Markvisst verður unnið að lagningu bundins slitlags á tengivegi til að styðja við atvinnu- og byggðaþróun og auðvelda skólaakstur á svæðum sem nú búa við malarvegi.“

Mikilvæg stefnumörkun. Hyggst hæstv. innviðaráðherra beita sér fyrir því að framkvæmdum við Vatnsnesveg verði flýtt enn frekar og meira fjármagn veitt til þess að svo megi verða?