152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:09]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gaman að fá hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson aftur hingað í hús. Ég held að við þurfum að sætta okkur við að þurfa að ræða þessa hluti aftur og aftur en ég trúi því að dropinn holi steininn. Varðandi hins vegar fyrirhyggjuna og hvað þurfi til þurfum við a.m.k. ekki ríkisstjórn sem hefur ekki skýra sýn eða ríkisstjórn þar sem flokkarnir hafa kannski hver og einn skýra sýn en eru of ólíkir til að geta sameinast um hana. Það er það sem við höfum ekki. Niðurstaðan af því verður bara að fólk heldur áfram að berja í brestina, gerir það ekki einu sinni nógu vel þannig að þeir stækka. Ég trúi því nú að það komi sá dagur að kjósendur velji sér fólk og flokka sem hafa skýr markmið og skýra framtíðarsýn eða velji sér þannig samsetningu að það auðnist að velja líkari flokka saman. Þá er einhver von um að við getum séð einhverja langtímahugsun. En ég get bara ómögulega séð að slík von sé uppi þegar þú ert með ríkisstjórnarflokka sem hafa þá sögu síðustu fjögur árin að vera meira að rífast innbyrðis heldur en við stjórnarandstöðuna og mál hafa jafnvel dagað uppi á ríkisstjórnarborðinu. Öll höfum við hér séð talsmenn Vinstri grænna og talsmenn Sjálfstæðisflokks takast á um heilbrigðismálin. Svo ég spyrji til baka: Gerir hv. þingmaður sér vonir um að úr því verði einhver framtíðarsýn?