152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég tek eftir þessu mynstri. Ég er ekki sannfærður um að það sé tilviljun. Það er margt sem hefur fengið mig til að trúa því að ríkisstjórnin vilji bara hafa það svona, af því að einhvern veginn sé sársaukalausast að koma hlutunum í gegn án umræðu með þessum hætti. Það liggur alveg fyrir að ef fólk ákveður að leggja af stað út í búð þremur mínútum fyrir lokun, þótt það hefði getað mætt klukkutíma fyrr, eru minni líkur á að það komi að búðinni opinni. Þetta mátti ríkisstjórnin alveg vita þegar hún ákvað haustkosningar. Ég hef alveg fullt umburðarlyndi fyrir því og skilning á því að með réttu gat hún setið jafnvel enn lengur. En með hag þjóðarinnar í huga held ég að skynsamlegast hefði verið að taka tilboði og óskum stjórnarandstöðunnar á þeim tíma um að vera með vorkosningar. Ég held að það sé heppilegri tími fyrir okkur eins og við höfum hagað hlutunum. Auðvitað komu þarna óvæntir hlutir inn í sem gerðu hlutina kannski ekki betri en það er eitthvað sem segir mér að ríkisstjórnin hafi jafnvel líka nýtt sér það tækifæri til að hræra aðeins í pottunum og draga upp einhvern rétt sem enginn veit enn hvað mun kosta eða hvernig mun líta út. En ljótasta birtingarmyndin er auðvitað sá óþarfadráttur í nokkra daga á þessari eingreiðslu sem tefur þá nauðsynlegu úrbót, neyðarúrbót.