152. löggjafarþing — 14. fundur,  21. des. 2021.

fjáraukalög 2021.

174. mál
[18:39]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir fyrirspurnina. Svarið er ofboðslega einfalt. Ef ég fengi að ráða því hvað yrði gert núna strax eftir áramótin myndi ég hætta að skattleggja þá sem minnst hafa milli handanna. Ef við tökum lægst launaða hóp þeirra sem verst hafa það þá eru þau samt — hugsið ykkur, þau lifa ekki af því, þau eru undir fátæktarmörkum og eru samt sköttuð um 35.000–40.000. Ég segi: Þarna er hreinlega verið að skatta fátækt.

Ef við horfum fram í tímann þá er núna 5,1% verðbólga og það á að fara að hækka almannatryggingar um 5,6%. Við sjáum bara hvert þetta stefnir, þessi 0,8% aukalega er að étast upp í verðbólgunni. Það segir sig sjálft að það þarf að gera eitthvað. Það þyrfti að gerast núna. Ríkisstjórnin gæti t.d. strax orðið við kröfu eldri borgara og hækkað um 17.000 kr. en ekki 10.000 kr. Þá hækka þeir um launaþróunina en ekki þessa undarlegu útreikninga sem þeir hafa alltaf notað til þess að ná niður — (Forseti hringir.) að borga heldur launaþróunina niður í verðtryggingu og undir það.