152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga og nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar og þar kennir margra grasa. En það er eitt sem veldur mér heilabrotum, sem er kannski mjög gott mál, og það eru breytingar sem verið er að gera á kerfinu í sambandi við grunnlífeyri, að fara úr 25% í 11% skerðingarsveiflu þarna sem sýnir svart á hvítu hversu fáránlegt kerfið sem við erum búin að byggja upp er orðið. Það segir okkur æpandi þá sögu að nú verðum við að fara að gera eitthvað í þessu, þetta gengur ekki upp. Þetta finnst mér hið besta mál en mér finnst vanta inn í fjárlögin að eitthvað sé gert fyrir eldri borgara — eldra fólkið sem hefur byggt upp landið en gerir ofboðslega hógværa kröfu um að í staðinn fyrir að fá 10.000 kr. hækkun fái það 17.000 kr. hækkun, fái hækkun í stíl við launaþróun. Þetta er ekki ósanngjörn eða frekjuleg hækkun. Eldri borgarar hafa beðið um það einu sinni sem tekið hefur verið af þeim undanfarin ár og áratugi. Ég spyr hv. framsögumann á nefndarálitinu hvers vegna í ósköpunum ekkert er gert til að taka á þessum málum og aðstoða eldra fólkið okkar sem biður hógværlega um 7.000 kr. meira á mánuði sem er auk þess rétt samkvæmt lögum vegna þess að miða á við launaþróun.