152. löggjafarþing — 15. fundur,  21. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[22:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil segja, út af orðum hæstv. fjármálaráðherra, að ég er einn af þessum nýliðum sem eiga að vera að gefast upp hérna um tíuleytið. En ég er ekki að gefast upp. Það sem er furðulegt er þetta: Hvar er ráðherra fjármála í umræðu um fjáraukann og fjárlögin? Hann hefur ekki verið í þingsal. Það hefur verið gegnumgangandi síðan ég byrjaði hér, þann 25. nóvember, að ráðherrar sjást bara ekki í þingsal. Jú, forsætisráðherra talaði hér um þingsályktunartillögu um breytta skipan ráðuneyta Stjórnarráðsins, sem er mjög gott. En málið er að ég er í fjárlaganefnd og við höfum unnið mjög góða og fína vinnu þar í samvinnu, bæði minni hluti og meiri hluti. Ég er líka í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem einnig er töluverð vinna og ég veigra mér ekki við því. Ég get alveg talað hérna til klukkan hálfátta í fyrramálið og farið þá beint á fund í menntamálanefnd. Það er ekkert að því. En það furðulega er að vinnuálagið er greinilega (Forseti hringir.) mismunandi milli stjórnarþingmanna og stjórnarandstæðinga. (Forseti hringir.) Stjórnarþingmenn vinna í nefndum en láta ekki sjá sig í þingsal. Og það sama á við um ráðherra.