152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[00:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil nú byrja á því að segja að mér finnst forseti hafa stýrt þessum fundi vel og engin vandkvæði á framkvæmd fundarins hér sem ástæða er til að gera athugasemdir við. Þingflokksformenn áttu fund og í ljós kom að hægt var að funda með hæstv. forseta Alþingis, Birgi Ármannssyni. Það er bara rangt sem hefur komið fram hér, að honum sé eitthvað vanbúnaði að geta mætt á fjarfund. (Gripið fram í.) Hann getur hann getur vel mætt á fjarfund ef menn vilja halda slíkan fjarfund.

En það sem ég ætlaði aðallega að ræða hér er að fyrr í kvöld var óskað eftir því að þingflokksformenn myndu tala saman til að tryggja að þetta gæti farið lýðræðislega fram og allt væri mjög gegnsætt og eðlilegt og þetta samtal þyrfti eiga sér stað í dagsljósi. En svo gerist það á þessum fundi að stjórnarandstaðan setur fram kröfur sem hún vill ekki að séu ræddar hérna í þingsal í dagsljósinu og vill ekki sýna neitt gagnsæi um þær kröfur, nefnilega að meiri hlutinn samþykki að greiða atkvæði með tillögu minni hlutans. Finnst mönnum þetta lýðræðislegt? Finnst mönnum þetta gagnsætt? Og hvers vegna ekki að ræða þetta hérna í ræðustól í stað þess að vera að bera fyrir sig að þetta snúist allt um það að ræðurnar séu haldnar á réttum tíma sólarhringsins? Segja bara það sama hérna í þingsal og menn segja á þessum fundum sem framhaldið á allt að ráðast á. Þá getum við átt heiðarlegt samtal um það hvernig þingstörfin eiga að þróast.