152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[01:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Við höfum náttúrlega þessi nýju lög um opinber fjármál. Eins góð og þau eru á blaði þá eru þau það ekki í framkvæmd. Margt í þessu fjárlagafrumvarpi snýst um breytingarnar frá því áður og hvernig þetta verður næst. Það er mikið fjallað um bundin útgjöld en það eru ákvarðanir sem þegar er búið að taka og það er búið að skuldbinda ríkið að fara í þau fjárútlát, samþykkt lög eða eitthvað því um líkt. Launa- og verðlagsþróun er annað. Niðurfellt aðhald og útgjaldasvigrúm, mikið er fjallað um þessa breytingu frá því í fyrra og þangað til á næsta ári. Svo þegar maður ætlar að skoða: Bíddu, en hvað þýddi allur þessi svokallaði rammi? Og ég spyr: Hvað kosta lögbundin verkefni sem við eigum að sinna? Hvað kosta þau núna og af hverju? Og einfalda spurningin: Hvað kosta þessi lögbundnu verkefni stofnunarinnar? Engin svör. Þau vita það ekki.