152. löggjafarþing — 15. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[01:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hlý orð í minn garð og segi bara sömuleiðis. Þetta er svo skemmtileg vinna í fjárlaganefnd. Varðandi öryrkja á vinnumarkaði þá tel ég að það sé grundvallaratriði fyrir íslenskt samfélag að hlúa betur að öryrkjum og hvetja þá til að fara út á vinnumarkaðinn, leitar sér sjálfsbjargar. Og það sama á við um eldri borgara. Mér finnst íslenskt samfélag svolítið hart í þessum málum. Það myndi mýkja umræðuna mikið og auka almenna sátt í samfélaginu ef tekið væri á þessum málum til þess að hægt sé að gera þetta að algjöru forgangsmáli.

Varðandi húsnæðismarkaðinn: Það er alveg rétt að það þarf að vera lóðaframboð og þarf að vera framboð hjá sveitarfélögunum. Það eru þau sem eru með skipulagsvaldið o.s.frv. En sveitarfélögin um landið — við erum ekki sambandsríki. Sveitarfélög eru með lögbundið hlutverk, það er miðstjórnarvaldið sem setur þeim rammann og segir til um hvaða verkefni þau hafa. Ríkisvaldið getur sett ákveðna hvata til þess að lóðaframboð verði aukið eða farið fram á það við þau í samningaviðræðum eða jafnvel með lögum.