152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[10:28]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott andsvar. Mig langar í seinni spurningunni að halda mig við heilbrigðiskerfið. Eins og hv. þingmaður benti á hefur heilbrigðiskerfið verið fjársvelt eða undirfjármagnað um langa tíð og það hefur haft mjög slæm áhrif hvað varðar mönnun. Þarna er ekki verið að bæta neitt úr því að því er virðist. Nýlegar tölur, sem komu í hinu virta dagblaði Morgunblaðinu, sem einu sinni var sagt aldrei ljúga, segja að um 2.000 heilbrigðisstarfsmenn hafi flúið land á undanförnum áratug til þess að geta unnið við mannsæmandi skilyrði og fengið mannsæmandi laun í nágrannalöndum okkar. Og eftir að hafa búið í Afríku minnti þetta mig svolítið á það sem gerist oft þar, þar sem fólk með möguleika á því að fara og vinna annars staðar gerir það. Ekki bætir úr skák þegar launasamningar þessara stétta eru bara sendir í gerðardóm. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvað honum finnst um stefnuleysi stjórnvalda þegar kemur að því að tækla mönnunarvandann af alvöru en ekki bara kvarta og kveina og tala um stafrænar umbætur og framleiðniaukningu og ýmislegt annað.