152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[10:30]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar. Þetta er auðvitað ekki einfalt mál og ég ætla ekki að halda því fram. Ég ætla líka að taka það skýrt fram að í heilbrigðiskerfinu, eins og öllum stórum fjárfrekum kerfum, þarf alltaf að vera á tánum gagnvart því að gera hlutina skilvirkt, hagkvæmt og með þeim hætti sem best verður á kosið því að þarna fara um gríðarlega miklir peningar. Hins vegar hefur það blasað við og hefur kristallast mjög í tengslum við faraldurinn að við erum með kerfi sem í eru flöskuhálsar sem stofna öryggi borgaranna í hættu og verða til þess að við höfum þurft að beita aðgerðum úti í samfélaginu, sérstaklega á tímum faraldursins, sem eru allt of strangar vegna þess að þær hafa svo mikil áhrif á daglegt líf og atvinnulíf. Ef kerfið væri burðugra væri ekki þessi tappi í þessu öllu. Eins og ég minntist á í ræðu minni er þessi vandi búinn að vera öllum ljós, að hér þurfi að gera bragarbót. Tölfræðin sýnir að erlendis er samanburður á t.d. gjörgæslurýmum og bráðaþjónustu Íslandi mjög óhagstæður. Þetta höfum við vitað lengi. Við vitum að ekki er nóg að kaupa bretti og hníf og segjast þá vera kominn með skurðstofu. Það þarf nefnilega fólk til að setja fólk á brettið og skera upp og þar (Forseti hringir.) stendur hnífurinn í kúnni, svo við notum það orðalag.