152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:19]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir ræðu hans. Ég tek undir orð hans að því leyti að við getum alveg verið ósammála og tekist á en virt skoðanir. Margt af því sem hv. þingmaður sagði í sinni ræðu get ég vel tekið undir og sérstaklega, ef ég tek eitthvað út, hvernig við þurfum að móta upp á nýtt málefni eldra fólks og hvernig við höfum búið að því. Ég hjó eftir orðum hv. þingmanns þar sem hann ræddi um rekstur hjúkrunarheimila. Það hefur fjárlaganefnd látið sig talsvert varða á undanförnum árum. Í heilbrigðisstefnu höfum við einmitt verið að feta okkur þessa leið. Ég heyri að hv. þingmaður er alveg á sömu nótum, í það minnsta það sem ég get tekið undir og ég tel að innifelist í heilbrigðisstefnunni, það eru einmitt ekki síður áform um hvernig við getum beitt félagslega húsnæðiskerfinu til að horfa til eldra fólks ekki síður en til unga fólksins.

En það eru önnur atriði sem mig langar að tæpa á. Eðlilega erum við ekki sammála um alla hluti. Þá langar mig fyrst til að segja: Já, ég held að það geti verið rétt hjá hv. þingmanni að við séum að skrifa fjárlagafrumvarp sem tekur kannski mið af því að faraldurinn sé að enda. En svo er ekki. Ég get horfið eitt ár aftur í tímann og sagt: Ja, við bjuggumst ekki við því að vera þá í jafn sterkri stöðu efnahagslega og við erum í dag. Ég held að það sé niðurstaðan. Við vitum hins vegar að við erum enn í þessari óvissu og þess vegna held ég að fjárlagafrumvarpið sé ágætur vitnisburður um að við viljum enn fara varlega. Við viljum enn taka þannig utan um ríkissjóð að hann hafi öfluga viðspyrnu, að við séum ekki að skuldsetja hann meira en við gerum. (Forseti hringir.) Það er kannski sú mynd sem ég vil biðja hv. þingmann að bregðast við.