152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi óska þess að ég væri jafn bjartur varðandi fjárlagafrumvarpið og hv. þingmaður, að líta þannig á að þetta séu einungis frumdrög sem muni svo breytast öll hér í meðförum þingsins. Því miður er það ekki reynsla mín, þó að ég sé ekki beinlínis hokinn af reynslu. Ég hef tekið þátt í afgreiðslu sex fjárlaga, þetta eru sjöttu fjárlögin núna, og það er ekki mín reynsla. Því miður hefur ríkisstjórnin í rauninni töglin og hagldirnar og meiri hluti fjárlaganefndar dansar pínu eftir þeirra höfði. Ég var þess vegna að hvetja þau til þess að vera sjálfstæðari þannig að við getum einmitt náð þeim árangri að fjárlögin verði meira með þeim hætti sem hv. þm. Jakob Frímann Magnússon nefndi hér áðan. Það væri svo sannarlega gleðileg stund og þá erum við kannski komin svona eitt skref áfram í lýðræðinu.