152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:51]
Horfa

Daði Már Kristófersson (V) (andsvar):

Já, það er svona. Þegar maður gerir hluti í fyrsta skipti þá er eðlilegt að maður geri smávægileg mistök. En ég þakka hv. þingmanni fyrir tækifærið til þess að veita hér andsvör og fá æfingu í því líka, og t.d. því að hinkra við áður en maður stígur í pontu.

Í morgun flutti hér ræðu hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson og ræddi eiginlega þá stöðu sem við þurfum að horfast í augu við sem er að þessi faraldur er ekki skammtímafyrirbæri, hann verður ekki reiðarslag sem gengur yfir eins og spænska veikin, heldur faraldur sem mun verða viðvarandi. Það kallar á endurskoðun viðbragða við honum. Og nákvæmlega eins og hv. þingmaður vék að eru lausnirnar kannski ekki þær sem við bjuggumst við og hefðu orðið eðlilegar í styttri faraldri, þ.e. að hjálpa einfaldlega fyrirtækjum í þeim atvinnugreinum að þreyja þorrann og vona svo að eftirspurn eftir þeirra þjónustu og vöru komi til baka aftur, heldur þarf að leita nýrra leiða. Það sem er hins vegar athyglisvert er að sá drifkraftur sem keyrir áfram atvinnulífið er viðvarandi óháð því hvaða ákvarðanir eru teknar í þessum sal, alla vega að nokkru leyti. Og alveg eins og hv. þingmaður benti á þá hafa þessi tækifæri einfaldlega bara sprottið upp. Snjallt fólk fær góðar hugmyndir og hrindir þeim í framkvæmd. Það er alveg rétt hjá honum að það hefði á margan hátt verið mjög skynsamlegt að veðja á að þessi sköpunarkraftur væri til staðar og við gætum virkjað hann, vegna þess að hann hefur síðan sýnt sig að vera kraftmeiri og sjálfbærari en hin lausnin reyndist vera.