152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:12]
Horfa

Elín Anna Gísladóttir (V):

Forseti. Það er mér sannur heiður að standa hér í dag og taka þátt í umræðum um fjárlögin. Þetta er grundvallarplagg fyrir rekstur ríkis og uppbyggingar þeirra innviða og þjónustu sem fólkið í landinu treystir á. Það vill þó þannig til að þessi dagur er ekki einungis merkilegur fyrir mig sem held hér ræðu í fyrsta sinn. Hann er líka merkilegur fyrir þær sakir að þingflokkur minn er allur skipaður varamönnum. Fordæmalaust er orð sem hefur verið mikið notað síðan heimsfaraldurinn hóf innreið sína og held ég að þessar aðstæður séu það svo sannarlega, fordæmalausar.

Nú kom ég hér inn full tilhlökkunar til þess að takast á við þetta risavaxna verkefni, fékk hraða yfirferð á stöðu mála í hinum ýmsu nefndum, renndi í gegnum það hvernig mér beri að haga mér og hef reynt að kynna mér fjárlögin og önnur stórmál á örstuttum tíma. Ég viðurkenni fúslega að það hljóp í mann smá stress við þessar aðstæður og er ég þess fullviss að ég muni gera einhver mistök. Mögulega mun ég ávarpa virðulegan forseta rangt eða aðra hv. þingmenn eða jafnvel eitthvað annað. Það er nefnilega svo að í flestum tilvikum þegar maður þarf að gera hlutina hratt þá eru þeir ekki eins vel gerðir og maður hefði viljað. En það er akkúrat þannig sem mér sýnist sá tónn vera sem hefur verið settur á þetta þing. Það tók óralangan tíma að setja saman ríkisstjórn, fjárlög lögð seint fram og fleiri mikilvæg mál skal afgreiða á ógnarhraða. Eins og bent var á í ræðum hér í gær er þetta sjálfskipaður vandi ríkisstjórnarinnar.

Ef ég spóla til baka um nokkra daga þá var ég stödd á fimmtudagskvöld með æskuvinkonum í saumaklúbb. Við ræddum þar nýtt starf einnar úr hópnum og hvað það er oft erfitt að vera nýi starfsmaðurinn. Hópurinn var þó sammála um það að nýir starfsmenn gætu oftast verið mjög verðmætir því að þeir koma inn og horfa á hlutina með nýjum augum. Ekki óraði mig fyrir því að innan við sólarhring seinna væri ég komin á þann stað að vera nýi starfsmaðurinn. En þar sem svo er þá ætla ég að leyfa mér að horfa á starfið hér með augum nýja starfsmannsins. Mér blöskraði að horfa upp á 2. umr. fjárlaga fara af stað án þess að nokkur ráðherra væri hér viðstaddur og reyndar var varla að sjá þingmann frá stjórn í salnum. Eftir atkvæðagreiðsluna sem var um málið á undan horfði ég á stjórnarþingmenn kveðjast með orðunum: Sjáumst á morgun. Ekki virtist nokkur áhugi vera á því að í þingsal færi fram eitthvert samtal um mikilvægustu lög landsins.

Hraðinn, vinnutíminn, valdhrokinn sem var sýndur í samræðum í gær er ekki til eftirbreytni og tel ég að þingið þurfi að vanda betur til verka. Fyrsti liður í því væri til að mynda að festa það í lög að halda kosningar að vori. Þannig væri hægt að tryggja fullnægjandi svigrúm fyrir stjórnarmyndun og setningu fjárlaga. Reyndar hafði ríkisstjórnin í hendi sér að boða til kosninga að vori eins og allar fyrri ríkisstjórnir hafa gert sem hafa setið heilt kjörtímabil eftir skyndilegar haustkosningar. Síðan væri ekki verra að sjá meiri hlutann bera virðingu fyrir störfum og umboði þingmanna minni hlutans.

Það er svolítið áhugavert að lesa fjárlög á þessum tímapunkti. Það er ekki langt síðan frumvarpið var lagt fram en þá var staðan í heimsfaraldri sem við glímum við allt önnur. Í dag eru í raun töluvert aðrar aðstæður en voru fyrir mjög stuttu síðan. Það stingur því örlítið í stúf að sjá hversu mikil bjartsýni er í fjárlögunum. Það er spurning hvort tilefni sé til þess að setjast yfir stöðuna sem þjóðin stendur nú frammi fyrir og endurmeta hvað bíður okkar.

En þar sem ég stoppa eingöngu hér í nokkra daga, alla vega í bili, þá vil ég nýta tækifærið og ræða nokkur mál sérstaklega. Fyrst vil ég hvetja ríkisstjórnina til þess að standa við eigin fyrirheit sem hún hefur nú þegar sett í lög. NPA-samningar eru í lögum en hafa ekki verið fjármagnaðir að fullu. Meðan þannig er um hnúta búið er ekki unnt að veita þessa mikilvægu þjónustu. Sömu sögu er að segja af sálfræðiþjónustu. Niðurgreiðsla hennar var bundin í lög en hefur ekki verið fjármögnuð enn þá. Núna er tækifæri til þess að bæta úr því. Það er rosalega gott að geta farið fram með stjórnarsáttmála með fallegum orðum, jafnvel fengið samþykkt á Alþingi falleg lög sem fólk er sammála um en fjármagna þau svo ekki. Þetta er stórt mál fyrir framtíðina. Andleg heilsa fólks á að standa jafnfætis líkamlegri heilsu og það mun borga sig margfalt til baka að taka á þessum málum af festu. Fyrir heimsfaraldurinn taldi þriðjungur fólks sig ekki hafa efni á því að sækja sér geðheilbrigðisþjónustu. Hlutfallið er enn hærra meðal námsmanna og tekjulægri hópa. Það eru engar líkur á því að það hafi skánað undanfarin tvö ár.

Næst vil ég sem þingmaður Suðvesturkjördæmis ræða fjármögnun samgangna. Það er gríðarlega mikilvægt að samgöngur hér á höfuðborgarsvæðinu séu samgöngur framtíðarinnar. Við verðum að þora að taka róttæk skref til þess að almenningssamgöngur verði raunhæfur valkostur. Eins og yfirleitt gildir um innviðaskuldir eru tafir mun dýrari í samfélaginu en framkvæmdir. Stjórnvöldum ber skylda til að sinna þeim til að stuðla hér að áframhaldandi atvinnu og verðmætasköpun. Við þurfum þannig öll að þora að takast á við dýrar samgöngubætur eins og Sundabraut og leyfa þar einkaframtakinu að taka þátt. Af fjárlagafrumvarpinu má ráða að það verður ekki farið út í þá framkvæmd án aðkomu einkaframtaksins. Sem Mosfellingur get ég sagt ykkur að þessi framkvæmd er bráðnauðsynleg til að tryggja öruggt flæði inn og út af höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega ef fyrirætlanir ganga eftir um flutning á sorpi til brennslu í Álfsnes, sem er reyndar eitthvað sem mætti skoða betur með tilliti til nálægðar við íbúabyggð.

Að lokum vil ég nefna menntamál. Heimsfaraldurinn hefur komið skólakerfinu á stað sem við héldum að yrði ekki náð fyrr en töluvert seinna. Það að hafa verið þröngvað inn í tæknina var áskorun og eiga kennarar og starfsfólk skólanna heiður skilinn fyrir að hafa undanfarin næstum tvö ár sveigt skólastarf og beygt í hinar ótrúlegustu áttir. Notum nú tækifærið og styðjum við þessa þróun. Hættum þessari ótrúlegu tregðu við að ríkið hætti með einokun á námsgagnaframleiðslu og tryggjum það að framtíðin verði tryggð inn í skólastarf okkur öllum til heilla. Hvort það takist með skólamálin klofin á milli ráðuneyta verður að koma í ljós.

Að öllu virtu eru sóknarfæri til staðar. Ríkisstjórnin getur samþykkt fjárlög sem tryggja hér aukna hagsæld, greiðar og nútímalegar samgöngur og nauðsynlega grunnþjónustu. Til þess þarf ekki annað en vilja og samstöðu 32 þingmanna. Augu nýliðans segja mér að þetta sé mögulegt. Hvað segið þið?