152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður höfum rætt þetta með gagnsæið áður og það er gríðarlega mikilvægt og ég hef stutt hann í því, og ég veit að fyrrverandi formaður gerði það líka, að reyna að nálgast þetta. Hæg hafa skrefin verið, en þó höfum við eitthvað örlítið potast áfram. Jú, ég er alveg tilbúin til þess, ég hef ámálgað það hér og ég held að við eigum að gefa okkur tíma til að fara í þessa vinnu því að hún er gríðarlega mikilvæg. Það er sannarlega rétt að það er mikilvægt að við látum ekki króa okkur inni með eitthvað þannig að við getum jafnvel ekki greitt einhverri tillögu atkvæði af því að hún er í einhverjum potti eða í samfellu af skjölum eða röðum sem ekki er hægt að greiða atkvæði um nema í heild sinni. Ég veit að það er vilji til þess og ég held að sé ekki bara í fjárlaganefnd, ég held að það sé vilji til þess líka innan þingsins. Og ég held að við höfum fleiri með okkur, jafnvel starfsfólk og aðra til þess að reyna að gera þetta einfaldara og gagnsærra, framsetninguna á frumvarpinu sjálfu líka, ekki bara á breytingartillögum og öðru slíku. Það væri þó sannarlega til bóta ef það yrði skárra. Þó að okkur gangi kannski hægar að eiga við það að laga framsetningu á sjálfu málinu þá er ég sammála því að það myndi skila miklu ef við gætum gert þetta betra og gagnsærra. Það mætti brjóta atriði upp, jafnvel þó að það yrði í sömu málsnúmerum eða liðum. Þannig að jú, ég er til í að fara í þessa vinnu. Við vitum að við eigum dálítið verk fyrir höndum eftir áramótin en ég mun ekki ýta þessu frá mér. Ég held að við eigum að leggja af stað í þessa vinnu — eða halda henni áfram, við höfum tekið hænuskref, eins og ég sagði. Þannig að ég alla vega segi já við því. Við skulum nálgast þetta.