152. löggjafarþing — 16. fundur,  22. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[17:37]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Fjárlög nýrrar ríkisstjórnar eru fyrsti prófsteinninn á hvort mark sé takandi á loforðum hennar. Nú hefur ríkisstjórnin sýnt á spilin varðandi fyrsta fjórðung kjörtímabils og virðist ekki mikið að marka þau loforð. Umfang aðgerða ríkissjóðs á síðustu tveimur árum endurspeglar nauðsynleg viðbrögð við heimsfaraldri, ekki stefnu eða sókn. Nú tekur við þriðja árið þar sem viðbragðsstjórnmál ráða för og lítið svigrúm er til nauðsynlegra úrbóta á grunnkerfum hins opinbera til varnar velferð eða til sóknar. Þetta endurspeglar grundvallaráherslur stjórnvalda síðustu ár. Ríkissjóður er áhorfandi en ekki gerandi í samfélaginu og stígur einvörðungu inn í neyð. Lítið fer fyrir umræðu um mikilvægi þess að móta markaði til að breyta undirliggjandi ójafnvægi í kerfinu. Við skuldum hvert öðru sem samfélag að styrkja betur grunninn sem við vöxum öll á. Sú styrking mun ekki eiga sér stað í bráð ef marka má fjárlög næsta árs.