152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[12:18]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Rannsóknir sýna einmitt að gjaldið þarf að vera þokkalega hátt til þess að skila árangri, til að draga raunverulega úr losun, þannig að það kemur kannski ekki á óvart að gjaldið eins og það er núna hafi ekki skilað miklu. Ég hef ekki lesið þessa skýrslu sem hv. þingmaður vísar til en ég er sammála hv. þingmanni hvað það varðar að það má ekki verða þannig að græn skattheimta bíti sérstaklega tekjulægri hópa og íbúa í hinum dreifðu byggðum. Það þarf þá að grípa sérstaklega til mótvægisaðgerða, t.d. nota tekjurnar með einhverjum hætti til þess til að mynda að greiða það út, hvað heitir þetta, „carbon tax and dividend“. Þetta eru hugmyndir sem m.a. hefur verið fjallað um í skýrslu OECD, að skattleggja kolefnisnotkun en beina svo peningunum, eins og einhvers konar borgaralaunum, til tekjulægri hópa, jafnvel þá með svona tekjutengdu eingreiðslukerfi, einhverju því um líku.